Press "Enter" to skip to content

Jólagjafahugmynd – Ferðamál

Færslan er ekki kostuð á neinn hátt, aðeins ánægð fjallamanneskja sem vill deila gleðinni sem öðrum. 

Þó aðeins séu tveir dagar til jóla eru eflaust einhverjir sem eiga eftir að kaupa síðustu jólagjöfina – eða bara þær allar. Því ætlum við að koma með eina jólagjafahugmynd í viðbót, nú eða bara gjafahugmynd því fólk á jú afmæli allan ársins hring. Og þessi gjöf hentar ekki aðeins útivistarfólki heldur hreinlega bara öllum sem drekka eitthvað heitt – nú eða kalt.

Þar sem við hjá Af Stað elskum kaffi, te og heitt kakó upp á fjalli eða við fjallsrætur eftir gott ævintýri, ætlum við að mæla með ferðamáli frá japanska fyrirtækinu Kinto. Ferðamálið er úr stáli með sílikoni í lokinu og heldur heitu í um það bil 6 klst. Okkar reynsla er þó sú að ef bollinn er hitaður vel áður en vökvinn, sem á að taka með út er settur í, endist hann lengur. Bollinn tekur 350ml af vökva sem er mjög heppileg stærð fyrir einn góðan kaffi- eða tebolla á köldum degi upp á fjalli þegar líkaminn þar yl og orku. Sílikonið í lokinu þéttir hann vel og kemur í veg fyrir að eitthvað sullist niður veltist bollinn á hliðina í pokanum. Annað gott ráð til að halda innihaldinu heitu er að setja ferðamálið í ullarsokk eða ullarvettling á allra köldustu eða lengstu dögunum.

Ferðamálið er ekki aðeins heppilegt þegar farið er á fjöll heldur í öll ferðalög og bílferðir, langa daga á lesstofu Háskólans og bæjarferðina. Fyrir utan hvað það er umhverfisvænt og fallegt, heldur það heitu og köldu ef menn kjósa það og kemur i nokkrum litum. Við biðjum ekki um mikið meira en það.

Kinto ferðamálið fæst hjá Te og Kaffi og kostar 5.495kr. 

Ferðaáætlun 2025 er komin út!