Press "Enter" to skip to content

Hafrahlíð(245m) og Reykjaborg (286m)

Við hlið Úlfarsfells, sem við gerum ráð fyrir að flestir höfuðborgarbúar hafa gengið á, er fell sem líklega aðeins færri hafa farið á. Fellið þetta, sem gnæfir yfir Hafravatni, er ýmist nefnt Hafrahlíð (245m) eða Hafrafell. En það er ekki eina fellið sem við ætlum að rölta á í dag heldur ætlum við einnig að fara á Reykjaborg (286m) sem er litli kollurinn sem blasir við úr Mosfellsbænum. Fellin tvö eru ekki há eða brött á fótinn en þau eru tilvalin til að vinna í þolinu eða fyrir þægilega göngu eftir vinnu.

 Við byrjum gönguna á bílastæðinu við Hafrafellsrétt við Hafravatn og göngum eftir slóðanum í gegnum skógræktina. Eftir nokkra mínútna gang skiptist slóðin í tvennt og við veljum þennan vinstramegin. Þegar við komum upp á veginn, göngum við þvert yfir hann og höldum áfram að fylgja slóðanum og stikunum í átt að Borgarvatni.

Þegar komið er að norðurenda Borgarvatns tökum við vinstri beygju og höldum upp á Reykjaborg. Af toppinum á Reykjaborg horfum við yfir Mosfellsbæinn, Esjuna og á góðvirðisdegi – Snæfellsjökul. 

Við höldum leið okkar áfram yfir á Hafrahlíð og toppinn á því felli sem kallast Lali. Hér segjum við skilið við stikurnar en fylgjum slóðanum áfram áleiðis í átt að toppnum. Þegar við komum upp á næstu hlíð hverfum slóðinn en við látum það ekki trufla okkur heldur höldum beint áfram í átt að vörðunni sem er á toppnum Lala (stefnum í átt til Reykjavíkur).

Af toppi Lala sjáum við meðal annars yfir á hið vinsæla Úlfarsfell og fáum prýðis útsýni yfir stórborgina Reykjavík, Reykjanesið, Vífilsfell og Bláfjöll.

Héðan færum við okkur niður á veginn og höldum okkur við hann áleiðis niður á bílastæðið.  Það er bæði hægt að taka hægri beygju þegar við komum niður að skógræktinni (þar sem við þveruðum veginn snemma í göngunni) og ganga sömu leið niður eða halda áfram eftir veginum – það ætlum við að gera.

Þegar við höfum gengið framhjá rauðu hliði inn á einkaveg förum við að hafa opin augun fyrir okkar beygju til hægri sem kemur næst á eftir. Þar fylgjum við göngustíg niður að vatninu og göngum þaðan á bílastæðið þar sem bílinn bíður okkar. 

Hringur þessu um Hafrahlíð og Reykjaborg eru tæpir 7km og tekur um 1,5-2klst. Gangan er aðeins brött á fótinn fyrrihluta ferðar en heildarhækkun eru 260m.

Hér er hægt að nálgast GPS track af leiðinni sem að við mælum með að þið sækið áður en haldið er af stað.