Press "Enter" to skip to content

Stóri Meitill (514m)

Við fjölluðum um Litla Meitil um daginn og nú er komið að þeim stóra, Stóri Meitill er það!

Stóri Meitill liggur á Hellisheiðinni, fremst inn í Þrengslum og best er að leggja við malarnámuna góðu þegar gengið er á fjallið.

Leiðin upp er fjölbreytt og bíður upp á frábæra æfingu. Eftir að hafa hitað upp á sléttum kafla hefjast brekkurnar, sú fyrsta brött á fótinn og hitar mann enn frekar.

Útsýni yfir Þrengslin

Eftir hana liggur leiðin meðfram Stóra Meitli þar sem við fáum að skoða fjallið að neðan, upp brekkurnar og klettana. Útsýnið hefst hér strax og farið að sjá yfir Hellisheiði öðru megin og Þrengslin hinu megin.

Haust og vetur

Við komum að öxlinni á fjallinu, tökum krappa beygju til vinstri og höldum upp á leið, þessi brekka mun taka okkur alla leið á toppinn. Hún tekur sinn tíma og því óþarfi að fara of hratt upp. Eitt skref í einu.

Öxlin upp fjallið

Toppurinn og útsýnið af honum er fallegt, til allra átta og á góðum degi sést jafnvel til Eyja. Gígurinn efst á fjallinu er ekki síðri, stór og djúpur fullur af vatni sem frosið er að vetri en fagur blátt á sumrin.

Toppurinn

Þetta er frábær ganga sem hentar öllum þeim sem eru að leita að nýjum og spennandi fjöllum í safnið. Einnig hentar þessi vel til fjölskylduferða. Takið nestið með og kakó á brúsa!

Göngulengdin er um 6 km og tekur gangan að öllu jöfnu um 1,5 – 2klst. Hækkunin er temmileg eða 270m.