Nú þegar kólna fer í veðri hugsum við klæðnaðinn okkar í útivistinni aðeins öðruvísi en við gerum yfir sumarið. Ullin næst líkamanum, hlýtt og gott miðlag og svo skel sem hlífir okkur við úrkomu og vindi. Þetta erum við farin að þekkja.
Það sem vill þó oft gleymast hjá okkur konum er valið á íþróttatoppum sem við förum í. Margar konur fara bara í sinn venjulega íþróttatopp, þennan sama og hefur reynst svo vel í ræktinni og hugsa ekki út í það meir. Þar til þær standa á toppinum á fjallinu í nístingskulda og með blautan, kaldan íþróttatopp úr gerviefni næst sér. Sú sem þetta skrifar hefur fallið í þessa gryfju nokkrum sinnum. Verið í öllu réttu fötunum en samt ískalt inn á beini án þess að átta sig á sökudólgnum. Það var í einni slíkri ferð þar sem mér var bent á að hægt væri að fá íþróttatopp úr merinoull og ef mér leyfist að sletta – þvílíkur game changer.
Ullartoppur frá Icebreaker hefur sannað sitt og bjargað ýmsu í köldum göngum – og í útilegum þegar hitatölurnar fara að lækka. Það munar miklu að vera í íþróttatopp sem kælir mann ekki niður þrátt fyrir að vera vel rakur eftir brekkurnar. Merinoullin passar upp á það. Toppurinn er ekki með neinum saumum sem erta, er lipur, þægilegur undir bakpokann og þornar hratt.
Sama hvaða árstíð það er þá er ullartoppurinn alltaf það fyrsta sem ég fer í. Ég legg til að þið setjið einn svoleiðis á listann fyrir næstu verslunarferð. Þið munuð ekki sjá eftir því.
Icebreaker ullartoppar fást í GG Sport.
Mælum með!
(*færslan er ekki kostuð)