Press "Enter" to skip to content

Blákollur í Jósepsdal (532m)

Við höldum áfram að fjalla um gönguleiðir á Hellisheiðinni enda er ævintýralegt að ganga um mosavaxnar hraunbreiðurnar upp á fjöll og gíga eða á láglendinu milli þeirra. Í þessari leiðarlýsingu ætlum við að beina athygli okkar að 532m háu móbergsfelli sem ber nafnið Blákollur og er í Jósepsdal. Fjallið blasir við okkur þegar við keyrum eftir þjóðveginum en sjaldnast gefum við okkur tíma til að virða það nánar fyrir okkur fótgangandi.

Á þessari leið sem við segjum frá hér er gengið upp og niður sömu leiðina en margir möguleikar eru þó í boði vilji fólk lengja daginn sinn og fara hring um svæðið.

Við keyrum Suðurlandsveginn í átt að Hveragerði framhjá Litlu kaffistofunni, upp brekkuna að áminningarskilti Umferðarstofu þar sem bílhræunum hefur verið stillt upp. Fyrir framan skiltið er afleggjari þar sem við beygjum út af og leggjum á bílastæðaplaninu.

Við byrjum gönguna á því að fylgja breiðum slóða í austurátt að hrauninu. Þá þræðum við okkur í gegnum hraunið eftir mjóum slóða. Þegar komið er niður smá brekku tökum við vinstri beygju og höldum eftir slóðanum þar til við komum niður á breiða sléttu. Þar tökum við stefnuna á öxlina sem mun leiða okkur upp eftir fjallinu. Við göngum því meðfram fjallinu til að byrja með.

Þegar við komum upp á öxlina tökum við hægri beygju, segjum skilið við láglendið og hefjum gönguna upp sjálft fjallið. Við stefnum í átt að klettnum – en engar áhyggjur þetta er ekkert klöngur. Við vinnum okkur þarna upp með stefnuna á toppinn. Eftir klettana tekur við brekka sem er nokkuð brött á fótinn en með nokkrum stoppum er hún vel viðráðanleg. Það þarf að virða fyrir sér útsýnið fyrir aftan okkur líka.

Við höldum áfram og stefnum upp á toppinn – sem er reyndar ekki toppurinn, hann sjáum við ekki alveg strax.  Þegar komið er upp á hrygginn má sjá lítill slóða sem við fylgjum upp síðasta hlutann.

Á toppnum trónir falleg lítil varða sem staflað hefur verið upp á stórum steini og markar hæsta punkt fjallsins, 532m. Þaðan er ægifagur útsýni yfir hraunbreiður Hellisheiðarinnar, Hengilsvæðið, Sauðadalahnúk, Lambafell, Reykjavík, Esjuna og fleira.

Þá er komið á því að ganga niður. Það er bæði hægt að velja að fylgja sömu leið niður eða leggja lykkju á leið sína og fara niður hrygginn sem er beint framundan. Við ætlum hins vegar að velja sömu leið niður og tökum við vinstri beygju niður í átt að klettnum. Þræðum okkur aftur í gegnum þá og niður á breiða slóðann við fjallsræturnar. Þar tökum við svo vinstri beygju og fylgjum veginum sömu leið og við komum að fjallinu. Alla leið yfir sléttuna, í gegnum hraunbreiðurnar og að bílnum okkar.

Blákollur er þægilegt fjall að ganga á og hentar því vel þeim sem vilja kanna nýjar slóðir á Hellisheiðinni. Gönguvegalendin er um 5km og tekur um 2 klst. Þar sem við erum stödd upp á heiði byrjum við hærra uppi, það er því temmileg hækkun sem bíður okkar á þessu fjalli eða um 320m.

Hér er að finna track af leiðinni fyrir þá sem það vilja – við mælum að sjálfsögðu með því. Eins að hafa með sér viðeigandi öryggisbúnað eftir færð, aðstæðum og árstíma.

Reimið á ykkur skóna, setjið nestið í bakpokann og haldið af stað upp á Blákoll í Jósepsdal.