Við borgarmörkin er að finna stærsta útivistarsvæðið á höfuðborgarsvæðinu, sjálfa Heiðmörk. Heiðmörk þarf vart að kynna fyrir lesendum enda er þetta vinsæla svæði sannkölluð útivistarparadís. Hvort sem þú kýst að vera gangandi, hlaupandi, hjólandi, á gönguskíðum þegar það er hægt eða jafnvel á hestbaki, drekka heit kakó með fjölskyldunni eða grilla pulsur á sunnudegi – það geta allir fundir sér eitthvað við sitt hæfi á svæðinu.
Einn helsti kosturinn við Heiðmörkina er skjólið sem þar er að finna. Þegar íslenska rokið býður ekki upp á mikla útiveru þá er Heiðmörkin staðurinn til að vera á. Síðustu ár hefur Skógræktarfélag Reykjavíkur unnið að því að merkja göngustíga og býður svæðið því upp á fjölmargar mismunandi langar og krefjandi leiðir sem hægt er að velja úr eftir formi eða stemmingu þann daginn. Við ætlum ekki að fara yfir allar leiðirnar enda eru þær fjölmargar, bæði merktar og ómerktar, heldur ætlum við aðeins að nefna þær sem við heimsækjum oftast.
Norðmannahringurinn er 1,8 km hringur merktur með bleiku
Skógarhringurinn er í viðeignandi grænum lit og er 3,3 km
Strípshringurinn er appelsínugul 4,1 km löng leið
Vatnaleiðin er 7,5km blá að lit
Þessar leiðir liggja allar saman, sumar skarast um tíma en ytri hringur þeirra mynda hinn vinsæla 12 km langa Ríkishring sem margir þekkja en ekki allir vita hvar er að finna. Þægilegast er að byrja á hringnum á bílastæðinu við Helluvatn og fara með fram Elliðarvatni. Fyrir þá sem ekki eru kunnugir staðarháttum í Heiðmörkinni er vissara að skoða kortið vel áður en haldið er af stað það getur verið auðvelt að villast af leið.
Heiðmörk teygir arma sína langt og nær það alla leið að Vífilsstaðavatni en þar er að finna skemmtilega leið sem kallast Sólarhringurinn. Sólarhringurinn er 7,5 km löng, merkt með gulu og liggur hún upp á Vífilsstaðahlíðinni fyrir ofan vatnið. Það er vert að nefna að þessi leið er eftir mjóum kindastígum og er ekki mjög heppileg í rigningu þar sem farið er yfir móa og meli. Í þurru veðri er þetta hins vegar ákaflega falleg leið. Hægt er að leggja á bílastæðinu við Vífilsstaðavatn, ganga þaðan upp á hæðina og byrja hringinn.
Það er tilvalið að nýta veðrið þessa dagana og fara í Heiðmörk hvort sem þið kjósið að æfa þolið eða njóta með fjölskyldunni. Áður en þið haldið af vit ævintýranna í skóginum mælum við með að þið skoðið vel kortið af svæðinu sem gefið var út af Skógræktarfélagi Reykjavíkur árið 2019. Hér er það að finna.
Af stað nú – finnum skjólið í Heiðmörk.