Færslan er ekki kostuð á neinn hátt, aðeins ánægð fjallamanneskja sem vill deila gleðinni sem öðrum.
Þurrpoki eða dry bag er tilvalin jólagjöf fyrir útivistarfólkið. En hvað er þurrpoki og til hvers þurfum við svoleiðis spyrja sig einhverjir að núna. Mjög góðar og gildar spurningar sem við ætlum að svara.
Á Íslandi er allra veðra von og því sterkar líkur á að við lendum reglulega í hressandi slagviðri á ferð okkar um landið og miðin. Bakpokarnir okkar eru yfirleitt ekki mjög vatnsheldir og því hætta á að þeir blotni í gegn. Þar koma þurrpokarnir sterkir til leiks. Þurrpoki er léttur og slitsterkur poki með mikilli vatnsvörn sem mun halda þeim búnaði sem við viljum alls ekki að blotni, þurrum. Auka vettlingar, sokkar, lambúshetta og buff eru dæmi um svokallaðan ,,neyðarfatnað“ sem við viljum halda þurrum ef við skyldum þurfa á því að halda. Batterí, hleðslubanki og snúra eru einnig búnaður sem við viljum halda frá öllum raka. Þykk úlpa fyrir nestisstoppið í vetrarferðum eða jafnvel nestið okkar. Það væri einnig verra ef ullarfötin sem við ætlum að sofa í, í bakpokaferðinni, myndu blotna í allri rigningunni.
Þurrpokarnir virka þannig að hægt er að þjappa fatnaðinum saman og lofttæma pokann áður en toppnum er rúllað niður og smellt saman. Þannig minnkar maður umfang þess sem maður er með, t.d dúnúlpu.
Þurrpokanir fást í öllum útivistarverslunum frá ólíkum framleiðendum. Þeir sem við ætlum að mæla með eru frá fyrirtækinu Exped og fást meðal annars í GG sport. Þeir eru úr nyloni og húðaðir að innan með silikoni eða PU. Vatnsheldnin þeirra er 1500 mm. Þurrpokarnir koma í mismunandi stærðum allt frá 1 lítra upp í 40 lítra. Þá eru litirnir einnig fjölbreyttir sem einfaldar skipulagið í pokanum mikið. Við þurfum ekki að róta lengi eftir vettlingunum heldur bara finna gula pokann eða þann græna. Við mælum með að eiga minni poka fyrir ,,neyðarfatnað“ og tæknidót og annan stærri fyrir lengri ferðir eða dúnúlpuna í dagsferðum.
Það er af ofangreindum ástæðum sem kjörið er að lauma þurrpoka í jólapakkann hjá útivistarfólkinu í fjölskyldunni – hvort sem áhuginn snýr að lengri eða styttri göngum, hjólreiðum, kayak eða hestaferðum. Þurr fatnaður og búnaður og gott skipulag er það sem við viljum flest – hvort sem ferðin stendur yfir í nokkra klukkutíma eða nokkra daga.
Sem fyrr segir fást þurrpokarnir meðal annars í GG sport. Þegar þetta er skrifað kosta þeir á bilinu 2.090kr til 5.290kr eftir því hversu stór poki verður fyrir valinu.