Press "Enter" to skip to content

Topp 5 – GPS úr

Ég hreyfi mig ekki nema að geta mælt það á einhvern hátt! Þarna er það, komið út í netheiminn. En ég efa samt ekki að fleiri eru á sömu skoðun. Það er bara eitthvað við tölfræðina á bakvið æfingarnar, að geta skoðað hana, greint niður í smæstu atriði og notað svo hana til að bæta sig næst…og næst….og næst!

GPS úr eru snilld til að nota við æfingar, þau gefa upp mjög nákvæmar upplýsingar um hreyfinguna, gps hnit og staðsetningar, leiðir o.fl. Allt þetta án þess að vera með símann á sér á meðan á öllu stendur.

Hér að neðan kemur TOPP 5 listi yfir þau úr sem eru á markaðinum í dag og við mælum með. Listinn er ekki í neinni ákveðinni röð.

 

Garmin Fenix 5 línan – Garmin er þekkt merki í útivistinni, gps tækjum, úrum, myndavélum o.fl. Þetta er bara eitthvað sem þessir menn kunna og gera vel! 5 línan er sú nýjasta hjá þeim og kemur í nokkrum útgáfum og skífu stærðum (kk og kvk). Úrið mælir allt sem hægt er að mæla og býður upp á margar forsettar íþróttir, s.s. hlaup, göngur, sund, hjólreiðar o.fl. Það er tiltölulega auðvelt í notkun og um leið og það kemst í vana þá gengur maður með það dagsdaglega. Það mælir skrefafjölda og kalóríubrennslu yfir daginn og gæði svefns á nóttunni. Nýjasta línan er með litaskjá og hægt er að setja landakort beint í það. Einnig kemur það með innbyggðum púlsmæli sem er alltaf kostur. Úrið tengist með Bluetooth við síma og þannig hægt að hlaða upplýsingum á milli. Og ekki má gleyma Garmin Connect samfélaginu sem er risa stórt nú þegar.

 

Garmin Fenix 3 línan – Nú verður þetta soldið villandi. 3 línan er forveri nýju Garmin úranna. Hún er tveggja ára gömul en þrátt fyrir aldurinn gefur hún nýju týpunni ekkert eftir. Megin munurinn á milli þessara tveggja úra er rafhlöðuending, nákvæmni skjás og upplýsinga nákvæmni. Nýja línan er því byggð á forvera sínum sem hún bætir. En þá kemur flækjan…verðmunurinn. Fenix 3 fæst í dag nýtt á bilinu 40.000kr. – 50.000kr. (notað frá ca 30.000kr.) á meðan nýja kostar frá 75.000kr. Þetta er því dágóður munur og verður hver og einn því að gera upp við sig hvort hann sé þess virði. Mín persónulega skoðun er sú að til að byrja með er erfitt að réttlæta þennan mun þegar Fenix 3 er ennþá að virka vel…en bíðum þangað til Fenix 5 línan lækkar í verði og skoðum þetta aftur.

 

Apple Watch 3 útgáfa – Fyrir þá sem eru fastir í iOS heiminum þá er þetta málið. Glæsileg hönnun og mikil endurbæting frá fyrri útgáfum. Það er núna orðið vatnshelt og farið að mæla alla hreyfingu mun nákvæmar. Kemur með fyrirfram innbyggðum íþróttum, s.s. hlaupum, göngum, sundi o.fl. Það sem þetta úr gerir mjög vel er Siri og notification fítusinn, þú getur stýrt símanum þínum án þess að hafa hann við höndina. Mjög mikill kostur og þó svo að aðrir bjóði upp á svipaða fítusa þá verður það með sönnu segjast að Apple gerir þetta best. Það minnir þig líka á að standa upp og hreyfa þig þegar þú ert búinn að sitja lengi. Snilld!

 

Suunto Spartan Sport – Suunto var toppurinn áður fyrr og eru þeir að koma inn á markaðinn af krafti aftur. Sport úrið þeirra er frábært í alla útivist, með GPS fítus og öllum öðrum og algengum mælingum eins og önnur úr. Góð rafhlöðuending eða um 40 klukkutímar í GPS trakki. Það er mjög vel byggt og á við þau allra bestu…og á viðráðanlegu verði. Úrið tengist með Bluetooth við önnur tæki síðan og fær skilaboð úr síma í gegnum það. Hægt er að hlaða öllum upplýsingum úr því inn í tölvu eða síma og greina þannig allt betur.

 

TomTom Adventurer – Frá GPS leiðsögutækjaframleiðandanum kemur þetta flotta úr. Það er mjög auðvelt í notkun með stórum og fallegum skjá. Það skemmtilega við þetta úr er að það er hægt að búa til leiðir heima í tölvunni og senda svo í úrið til að fylgja eftir. Skemmtilegur fítus sem vert er að skoða. Það styður öpp eins og Strava og les alla hreyfingu þar inn. Eins og fyrr segir er úrið vel hannað og með mjög skýrum og björtum skjá. Þrátt fyrir hann er rafhlöðuendingin fín, eða um 20klst í GPS trakki. Fyrir peninginn (um 30.000kr.) er vert að skoða þetta úr og bæta því við flóruna sína af möguleikum.

 

Eins og þið sjáið þá er þessi markaður ansi stór og fjölbreyttur, úrin er mörg hver svipuð hvað grunnfítusa varðar en hvert og eitt hefur síðan sína nálgun á ítarlegri hluti. Oft á tíðum hluti sem maður vissi ekki að maður þyrfti…fyrr en maður prófaði. Það er því um að gera að prófa þau, setja á höndina, sjá hvernig það liggur, hvernig finnst manni að sjá á skjáinn o.fl. Og ekki gleyma verðinu.

Af stað…allir út í búð að skoða úr!

Comments are closed.