Press "Enter" to skip to content

Topp 5 – Leiðir til að halda utan um tölfræðina

Hver kannast ekki við að setja sér markmið, fara af stað en lenda síðan í vanda við að halda utan um það, skrá það niður, vista o.fl. Ekki nóg með að það var hausverkur að koma sér af stað þá lendir maður síðan í þessu! Í dag ætlum við að fara yfir 5 leiðir og öpp við að halda utan um það sem við gerum til að sjá árangurinn og loks fyrir endan á markmiðinu okkar.

Hérna eru 5 leiðir sem allir gætu notað:

Excel – já gamla góða excel, hver kannast ekki við að elska það…eða elska að hata. En málið með excel er að það er frábært tól til að safna saman upplýsingum og geyma þær, setja upp súlurit og reikna út meðaltöl o.fl. Kosturinn við excel er að maður hefur fulla stjórn á öllum hlutum, getur sett inn upplýsingar sem mann skipta mestu máli og raðað þeim upp að vild, hvort sem er með tölum eða á myndrænan hátt. Gallinn við að nota excel er hins vegar handavinnan, maður þarf að mata skjalið sitt með tölunum sjálfur, teknum úr heilsuúri eða appi. Hér þarf maður því að meta kostina vs gallana.

Sports Tracker – er app fyrir flestar tegundir síma sem er í gangi á meðan á átökum stendur. Það er hægt að nota stakt eða með öðrum aukahlutum eins og púlsmæli. Appið hefur verið til í mörg ár og hefur stóran stuðningshóp á bakvið sig. Appið mælir flesta hreyfingu og sýnir tölfræðina með skilvirkum hætti. Kosturinn við þetta app er að það hefur verið lengi til og er mjög stöðugt, með reglulegum uppfærslum, það mælir flest allt sem við gerum og heldur utan um það á miðlægum stað og því er engin hætta á að upplýsingar týnist þó maður skipti um símtæki. Ókosturinn við þetta app ef einhver er er samfélagið í kringum það á Íslandi, samfélagsnetið er ekki stórt hér á landi.

Strava – er annað app og ekki ósvipað því fyrra. Það mælir hreyfingu, hægt er að tengja það við önnur tæki og það heldur um öll gögnin í miðlægum gagnagrunnum. Upplýsingar hverfa því ekki. Kosturinn við þetta er ókosturinn við Sports Tracker, Strava hefur mjög stórt samfélagsnet út um allan heim, meðal annars hér á landi. Þetta app hefur náð fótfestu á meðal Íslendinga og eru mjög margir sem nota það. Hér er því upplagður vettvangur fyrir þá sem vilja keppa við aðra, skoða árangur þeirra og hugsanlega fá hvatningu í leiðinni.

Garmin Connect – er app sérstaklega hannað fyrir þá sem eiga Garmin tæki, heilsuúr eða annað. Eins og önnur öpp þá heldur það utan um alla tölfræðina og tengist beint við tækið sem maður notar. Garmin tækin hafa náð fótfestu hér á landi og margir sem eiga nú þegar tæki frá þeim, því er upplagt að flækja ekki málin frekar og nota appið sem þeir gefa út.

Gamla góða dagbókin – sem klikkar sjaldan! Já það má ekki gleyma henni fyrir þá sem ekki vilja tæknina, bara gömlu góðu leiðina. Það er eitthvað við að taka penna í hönd og skrifa bara niður tölurnar, geta svo flett í þeim til baka…retró og flott. Og svo sakar ekki að það er gaman að safna dagbókunum og eiga þær við höndina þegar á að fletta til baka.

 

Hérna eru nokkrar af þeim leiðum sem við notum við að halda utan um markmiðin okkar, listinn er að sjálfsögðu ekki tæmandi og með endurbættri tækni hefur öppum fjölgað til muna. Það skiptir því máli að velja sér það sem hentar manni sjáfum best, prófa sig áfram.

 

Af stað nú…allir að finna sína leið til að halda utan um markmiðin og tölfræðina!