Press "Enter" to skip to content

Topp 5 – Hlaðvörp í útivistinni (podcast)

Að komast út er frábært fyrir líkamann en líka fyrir hugann. Það er svo auðvelt að tæma hann úti á ferðinni, láta hann reika og leysa öll heimsins vandamál. En stundum vill maður vera með rödd í eyrunum og hlusta á einhver skemmtileg og fræðandi hlaðvörp eða podcast á ensku. Hérna kemur topp 5 listinn okkar af íslenskum og erlendum hlaðvörpum sem eru þarna úti.

Að sjálfsögðu er listinn ekki í neinni ákveðinni röð og öll hlaðvörpin eru frí og hlustanleg í öllum tegundum snjallsíma.

The Adventure Podcast – eru skemmtilegir, klukkutíma langir þættir þar sem tveir félagar ræða útivist af öllu tagi og allt sem henni tengist. Þeir fara yfir fréttir vikunnar, hvað er að gerast í heiminum, segja frá nýjasta búnaðinum og koma með ýmsan fróðleik. Einnig taka þeir skemmtileg viðtöl við ýmsa aðila í útivistinni, hvort sem um ræðir heimsmethafa eða stofnendur útivistarfyrirtækja. Skemmtilegir strákar sem halda manni við efnið.

Stuff you whould know – eru stuttir og hnitmiðaðir þættir um hin ýmsu viðfangsefni á milli himins og jarðar. Tveir félagar kryfja málin til mergjar og fræða okkur um hluti eins og koffeín, rafmynntir, dauðan eða tunglið. Viðfangsefnin eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg og þættirnir orðnir um 1200. Fylgist vel með þessum og fræðist á næstu göngu!

Flóð – er þáttasería úr smiðju Rúv um snjóflóðið á Flateyri sem fell árið 1995. Mögnuð 10 þátta sería um þennan merka atburð og afleiðingar hans. Björn Thors og Hrafnhildur Hagalín taka viðtöl við þá sem eiga að máli og við fáum að kafa ennþá dýpra inn í þessa sögu.

The Snorri Björns podcast show – úr smiðju Snorra Björns, samfélagsmiðlastjörnu og ljósmyndara. Hann fær til sín skemmtilega og fróðlega einstaklinga úr samfélaginu sem við fáum að fræðast nánar um. Þættirnir eru um 2 klst langir og veita manni innsýn inn í líf viðmælenda, allt frá Crossfit stjörnum til sjónvarpsmanna. Frábærir þættir sem stytta manni stundir.

Criminal – eru sakamálaþættir þar sem sagt er frá hinum ýmsu málum á fróðlegan hátt. Í hverjum þætti er tekið fyrir mál og það greint í þaula, sagt frá, tekin viðtöl og oft varpað nýju ljósi á aðstæður. Málin eru af öllum toga, allt frá fjársvikum til morðmála og þættirnir oft um 45 mín í senn. Þessir halda manni við efnið!

Þetta er aðeins brota brot af því skemmtilega efni sem til er þarna úti og það má því búast við að við hendum í aðra svona færslu bráðum…en þangað til…af stað nú, allir að finna sér skemmtilegt hlaðvarp!

Comments are closed.