Press "Enter" to skip to content

Topp 5 – Fjallakvikmyndir

Nú þegar farið er að rökkva fyrr á kvöldin og dagarnir verða styttri er fátt betra en að skella mynd í tækið, vatni í glasið, poppa og gera sig kláran í sófanum yfir góðri fjallamynd. Hérna koma okkar topp 5 myndir sem við mælum með að allir horfi á einu sinni…að minnsta kosti!

Touching the Void (2003) – er ótrúleg…já ÓTRÚLEG, sönn saga tveggja vina sem ákveða að klifa Siula Grande í Andesfjöllunum. Sagan er rosaleg og eflaust saga sem þið hafið heyrt af áður. En hérna er myndin sem gerir sögunni og atvikum hennar góð skil. Simon og Joe leggja af stað á fjallið í tilraun sína að vera þeir fyrstu til að standa á toppi þess. Það hefur afleiðingar sem við ætlum ekki að ræða frekar hér en eina sem við getum sagt er að myndin fær 8.0 í einkunn á IMDB og er það ekki af ástæðulausu.

Meru (2015) – er heimildarmynd um þrjá af fremstu útivistar- og fjallamönnum nútímans sem reyna við hinn óklifaða tind Meru fjalls í Himalaya fjöllunum. Conrad Anker, Jimmy Chin og Renan Ozturk segja sögu sína ásamt því að sýna frá leiðöngrunum tveimur, 2008 og aftur 2011 upp fjallið. Jimmy og Renan sjá um leikstjórn og myndefni ásamt því að klífa fjallið sjálft og úr verður mögnuð blanda. Myndefni sem átti fyrst og fremst að vera bara fyrir þá þrjá til að sýna vinum og fjölskyldu varð að heimildarmynd í fullri lengd vegna sögunnar og aðstæðna….meira má ekki segja!

Everest (2015) – í leikstjórn Baltasars Kormáks er mynd sem allir ættu að sjá. Þetta er leikin bíómynd sem segir söguna af slysinu sem varð á Everest í maí 1996. Þetta er spennumynd sem skartar brellum, myndum og þrívíddar líkönum af Everest sem áður hafa ekki sést. Baltasar skilar sínu starfi hér vel ásamt stjörnuprýdda leikaraliði sínu. Þessi er svakaleg!

K2 (1991) – er bandarísk spennu- og hasarmynd sem segir sögu tveggja vina sem setja stefnuna á K2, fjallið sem margir telja vera það allra hættulegasta. Þetta er hasarmynd af bestu gerð og minnir hún á myndir á borð við Top Gun. Brellurnar, handritið og myndatakan…allt er þetta til fyrirmyndar…þó svo að maður fái kannski pínu kjánahroll á tímabilum. En engu að síður er myndin hin besta skemmtun og reynir hún að sýna hinar miklu hættur sem leynast á K2.

The Dawn Wall (2017) – er 915m beinn veggur á hlið El Capitan “steinsins” í Yosemite dalnum í Bandaríkjunum. Þessi tiltekna hlið hefur aldrei verið klifin…og þar komum við inn í myndina. Þetta er heimildarmynd um Tommy Caldwell og klifurfélga hans Kevin Jorgeson. Myndin einblínir þó að mestu leyti á Tommy og hans ævi, frá barnsæsku fram að stóru stundinni. Farið er yfir þau tímabil sem hafa mótað hann að þeim klifrara sem reynir svo við hið ógerlega. Myndin var frumsýnd nú í haust en hefur nú þegar skóflað að sér verðlaunum á hinum og þessum verðlaunahátíðum. Algjör perla og mögnuð saga Tommy.

 

Af stað nú…allir að poppa og taka sér frí fyrir framan sjónvarpið í kvöld!