Þar sem margir eru að stíga sín fyrstu skref í vetrarfjallamennsku þessi misserin er ekki úr vegi að létta á einum stresshnútnum og fara yfir það hvað gott þykir að hafa í bakpokanum í lengri dagsferðum. Yfir veturinn er bakpokinn okkar yfirleitt aðeins þyngri en á sumrin enda meira sem fylgir útiveru á köldum dögum og í snjó. Við ætlum ekki að fara sérstaklega fyrir þann öryggisbúnað sem á að hafa með en hvetjum alla til að gæta fyllsta öryggis og vera ávallt með nauðsynlegar hálkuvarnir með í för (svo kallaðir esjubroddar eða jöklabrodda og exi ef aðstæður kalla á það), GPS tæki og/eða kort og áttavita.
Fyrst af öllu er það auðvitað bakpokinn. Fyrir vetrarferðir mælum við með 32l-42l bakpoka. 32/36l pokar eru mjög þægileg stærð. Það er ekki gott að vera með alltof stóran poka því þá hættir okkur til að fylla upp í tómarúmið með óþarfa dóti sem við erum ekki að fara að nota. Það nennir auðvitað enginn að bera auka dót upp brattar fjallshlíðar.
Við höfum áður farið yfir klæðnaðinn sem við göngum í og ætlum því ekki að eyða orðum í það núna en hafi sá pistill hefur farið framhjá ykkur þá er hann hér.
Ef þið gangið ekki af stað í skelfatnaðinum ykkar á hann alltaf að vera með í bakpokanum. Það er algjört lykilatriði þar sem vindar blása oft kröftuglega þegar hærra dregur á fjallið.
Auka úlpa sem pakkast vel ætti líka að vera með í för. Í nestisstoppum og á toppnum kólnar manni oft hratt og þá er gott að geta smellt yfir sig þykkari úlpu eða lopapeysu. Gott er að hafa í huga að sú flík sem maður tekur með pakkist vel og taki ekki of mikið pláss í pokanum. Mörgum úlpum fylgir poki þar sem hægt er að troða úlpunni ofaní og ,,lofttæma“ hana. Annað trikk er að brjóta hana saman og rúlla inn í hettuna.
Auka vettlingar. Ég veit ekkert verra en kaldir puttar. Í mínum bakpoka eru því yfirleitt tveir til þrír auka vettlingar. Þykkar skíðalúffur, prjónavettlingar og þunnir merino ullarvettlingar eru alltaf með yfir veturinn. Í göngunni skipti ég svo um vettlinga eftir þörfum og því eru þeir geymdir í topphólfinu þar sem ég næ þeim án þess að taka af mér pokann.
Margar göngubuxur eru með innbyggðar legghlífar sem koma í veg fyrir að snjórinn fari ofaní gönguskóna. Ef það er ekki á þínum buxum gæti verið heppilegt að taka legghlífar með ef það stefnir í snjóþunga göngu. Snjór í gönguskóm þýðir bara blautir og kaldir fætur.
Sólgleraugu með sérstakri vörn eru ómissandi hluti af búnaðinum – eiginlega bráðnauðsynlegur hluti þar sem þau verja augun frá skaðlegum útfjólubláum geislum sólarinnar sem endurkastast í snjónum. Við höfum áður skrifað pistil um sólgleraugu og jöklagleraugu sem við mælum með því að þið lesið hér. Sérstök útivistargleraugu og jöklagleraugu fást í vel flestum útivistar- og gleraugunabúðum.
Þó daginn sé farinn að lengja og birtan mætt fyrr á morgnanna og dvelur aðeins lengur með okkur seinni partinn er ekki kominn tími til að sleppa höfuðljósinu. Gott þykir að hafa höfuðljósið með í bakpokanum – jafnvel þó planið sé að vera komin heim vel fyrir myrkur á kvöldin. Ég hef það fyrir reglu að þegar höfuðljósið er með þá er líka auka batterí með. Þegar batteríin klárast missir ljósið styrk sinn. Það er því gott að geta skipt um batterí því enginn vill lenda í því að verða ljóslaus upp á fjalli.
Göngustafir hjálpa okkur að mörgu leiti – þeir létta álagi á hné og liði og hjálpa við jafnvægið. Ef stafirnir eru notaðir rétt þá eru þeir líkt og fjórhjóladrif í brekkunum. Hver vill það ekki? Með flestum göngustöfum fylgir vetrarkringla sem við setjum neðan á stafinu til að koma í veg fyrir að þeir sökkvi í djúpan snjó. Vetrarkringlan er svipuð þeim sem við sjáum neðan á skíðastöfum. Hér er hægt að lesa sér meira til um notkun á stöfunum.
Ég pakka öllu mínu dóti í þurrpoka. Bæði auðveldar það skipulagið og dótið mitt helst þurrt ef úrkoman verður mikil. Ég á nokkra poka í mismunandi stærðum og litum og hefur hver og einn sitt hlutverk. Til dæmis fer nestið í græna pokann, litli brúni er tæknipoki (batterí, snúra og hleðslubanki), skyndihjálpardótið er í rauðum og sá guli er neyðarpokinn. Neyðarpokinn geymir það dót sem ég vill síður nota en ekki vera án ef aðstæður verða þannig. Í mínum vetrar-neyðarpoka eru skíðagleraugu, lambúshetta, auka sokkar og skelvettlingar. Skíðagleraugun hjálpa okkur þegar vindar blása kröftuglega og erfitt verður að halda augunum opnum fyrir skafrenningi. Skíðagleraugun verja því augun fyrir veðrinu án þess að skerða skyggnið okkar.
Fyrir nestisstoppin er eins og fyrr segir auka úlpa eða lopapeysa lykilatriði en í flestum tilvikum nær hún ekki að verja afturendann frá kuldanum þegar við setjumst niður. Þar kynnum við einangrunarsessuna til leiks. Hún tekur lítið pláss og er fislétt en gegnir veigamiklu hlutverki í að halda á okkur hita – og kemur í veg fyrir að buxurnar blotni í snjónum eða rigningunni. Á köldum dögum er fátt betra en heit kakó eða te til að ylja okkur að innan. Til að hitinn haldist betur í hitabrúsanum er sniðugt að klæða brúsann í ullarsokk og geyma hann ofaní pokanum – ekki í hliðarvasanum.
Annað smælki sem er ávallt í mínum bakpoka er: Salernispappír og litlir plastpokar, sólarvörn og varasalvi, vatnsbrúsi, nesti og nasl.
Það er mikilvægt að koma góðu skipulagi á bakpokann sinn og temja sér það að setja hlutina alltaf á sama stað eða svipaðan stað. Með því móti komum við í veg fyrir að t.d samferðafólk okkar þurfi að bíða lengi eftir að við grömsum eftir hinum vettlingnum sem er einhversstaðar ofaní svartholi pokans.
Við erum auðvita eins mismunandi og við erum mörg. Sumir eru kulvísir á meðan aðrir virðast geta verið léttklæddir allan ársins hring. Þessi upptalning er því aðeins til að viðmiðunar en hver og einn þarf að finna út hvað hentar þeim. Það getur tekið nokkrar göngur – eða mjög margar göngur því veðrið er alltaf að breytast á þessu ástkæra landi okkar. En látið það ekki stoppa ykkur.
Pakkið í bakpokann og haldið af stað út í vetrarævintýrin.