Press "Enter" to skip to content

Hinn fullkomni dagpoki?

Já þetta er eiginlega spurning frekar en fullyrðing….er þannig bakpoki til og ef svo er hvar finn ég slíkan!?

Þegar kemur að útivist og fjallgöngum skiptir góður bakpoki jafn miklu máli og gönguskór og hlífðarfatnaður. Án hans er ekki hægt að fara og með slæman poka á bakinu getur ferðin orðið ömurleg…svo vægt sé til orða tekið. Þegar rætt er um dagpoka er verið að tala um bakpoka sem hentar í allar þessar helstu dagleiðir, s.s. Fimmvörðuháls, Hvannadalshnúk og aðrar styttri göngur.

En hvað ber að hafa í huga við val á pokum?

Það eru nokkur atriði og hér að neðan koma þau helstu:

  • Stærð í lítrum (L) – pokinn má ekki vera of lítill, hann þarf að rúma það helsta sem við þurfum að hafa í dagsferð, s.s. fatnað og útbúnað, nesti og drykki, sjúkrakitt, gps og annað smærra dót. Fyrir dagsferðir hef ég mælt með 30-40L poka, ekki minni og ekki mikið stærri þar sem þá er hætta á því að maður troði meira í hann en þurfa þykir.
  • Góðar mjaðmaólar – þar sem 80% þungans liggur á mjöðmunum skipta þessar mjög miklu máli. Gott er að hafa þær með þykkum púðum sem hægt er að stilla fram og aftur og finna það sem hentar manni. Ekki skemmir fyrir að hafa litla vasa á þeim sem hægt er að nýta undir snarl, myndavél eða annað lítið dót.
  • Þægilegar og stillanlegar axlarólar og bak – þetta eru mikilvæg atriði þegar kemur að því að fínstilla bakpokan og gera hann alveg að sínum. Nú til dags koma þessar ólar í karla og kvenna útgáfum og því vert að hafa það í huga líka. Bakið sjálft á að vera hægt að stilla upp og niður og velja þannig hvernig pokinn liggur við bakið á manni.
  • Hólf – …og helst nóg af þeim! Ekki hugsa bara um stóra aðalhólfið, pælum líka í þeim litlu sem eru á víð og dreifð um pokann og rúma hina ýmsu hluti. Hver hlutur ætti því að eiga sitt eigið “heimili”. Topphólfið ætti síðan að vera stórt og rúmgott, bæði innra og ytra. Pokinn ætti að hafa sér lýkkju fyrir gönugstafina líka, svo hægt sé að geyma þá á auðveldan hátt þegar þeir eru ekki í notkun.
  • Regnslá – fyrir þessi blautu skipti á fjöllum….og þau verða fleiri en tvö hér á landi! Þessi litla slá sem fer yfir pokan okkar og hlífir honum við úrkomu kemur sér alltaf vel. Pössum bara að hafa hana fasta við pokan sjálfan….annars er hætta á því að þurfa að horfa eftir henni í roki…

Með þessa fimm punkta að leiðarljósi er hægt að hefja leitina, fara í útivistarbúðirnar og nýta sérfræðiþekkingu starfsfólksins til aðstoðar.

Fyrir þá sem vilja bara vita svarið við “hvaða poka á ég að kaupa?” þá hef ég mælt með pokum frá Osprey í gegnum árin. Fyrir dagsferðirnar eru Kyte (36L – kvk) og Kestrel (38L – kk) málið, frábærir pokar sem tikka við öll atriðin hér að ofan. Þeir fást í dag í Ellingsen og GG Sport.

….af stað nú…allir að skoða bakpoka fyrir sumarið!