Press "Enter" to skip to content

Það er kalt úti – í hverju á ég að vera?

Þegar stórt er spurt… En þessu getum við svarað og ætlum að gera það hér með.

Þegar þetta er skrifað er lítið um snjó á stórhöfuðborgarasvæðinu þó langt sé liðið inn í nóvember. Við höldum þó fast í vonina um að hvíta gullið í fjöllunum sé komið til að vera og því ekki seinna vænna en að búa til sig undir vetrarfjallamennsku. Við ætlum að stikla á stóru hvað varðar fatnað fyrir útivist yfir vetrarmánuðina. Klæðnaðurinn er í grunninn ekkert ósvipaður því sem við veljum fyrir hlýrri mánuði. Kaldari dagar kalla á þykkari og hlýrri útgáfur af þeim fötum sem við veljum yfir sumarið. Við viljum vera í lagskiptum klæðnaði þannig að auðvelt sé að tempra hitastigið. Fjallgöngur snúast jú oft um að klæða sig í og úr – og borða nesti auðvitað.

Innsta lagið. Þetta þekkið þið öll. Við höfum áður fjallað um ullarfatnaðinn sem innsta lag og ætlum við því ekki að eyða miklum tíma í það núna. En í stuttu máli þá er ullarfatnaður snilldin sem heldur á okkur hita þó fötin blotni. Hægt er að fá ullarboli og buxur í mismunandi þykkt og lengd í flestum útivistarbúðum landins. Fyrir veturinn ættum við að velja þykkari ullarfatnað. Fyrir konur eru ullartoppur sérstaklega mikilvæg viðbót í fataskápinn. 

Göngubuxur. Við viljum velja buxur sem eru hlýjar og liprar ásamt því að verja okkur fyrir vindi og vætu. Softshell buxur eru gott dæmi um buxur sem uppfylla slíkar kröfur. Þær eru einangraðar með flísefni og halda því á okkur hita. Ytrabirgðir er vatnsfráhrindandi upp að vissu markið – ef vindur og úrkoma er mikil er vissara að fara í skelbuxurnar yfir. Þykkari göngubuxur duga okkur ýmist einar og sér eða í ullarbuxum undir.

Þegar hitatölurnar á vedur.is lækka og fara að blána er vissara að huga að þykkara miðlagi. Primaloft úlpur, léttar ullapeysur, flíspeysur og léttar dúnúlpur koma hér sterk inn til leiks. Ef þið eruð að velja milli primaloft og dúnúlpur þá eru nokkur atriði sem þarf að hafa í huga. Dúninn er t.d. mun hlýrri, léttar og fyrirferðaminni en þolir litla sem enga bleytu á meðan primaloftið heldur eiginleikum sínum þó það blotni en er þyngri og heldur ekki hita jafnlengi og dúnninn. Hérna er hægt að lesa meira um muninn á þessum tveimur efnum. Það er alltaf gott að vera með úlpu í bakpokanum, hvort sem þið kjósið að ganga í henni eða ekki. Úlpuna notið þið í nestisstoppum eða til að bregða ykkur í þegar á toppinn er komið. Eins og maðurinn sagðir – það er kalt á toppnum.

Skelfatnaður er mikilvægur fatnaður að eiga – allan ársins hring. Skelin ver okkur frá veðri og vindum líkt og tjaldið gerir í útilegu. Skeljakkar og buxur koma í öllum regnbogans litum, stærðum og sniðum því er um að gera að fara af stúfana og máta í nokkrum verslunum og finna það sem þér hentar. Fyrir utan að líta betur út á mynd þá er ákveðið öryggisatriði í að velja sér útivistarfatnað í lit. Við sjáumst betur ef það þarf að leita af okkur. Hafið það bak við eyrað þegar þið veljið ykkur skeljakka – svartur sést ílla í myrkri.

Vettlingar. Því fleiri í bakpokann því betra en mitt mottó enda er ég alltaf með a.m.k. tvö auka pör í mismunandi þykkt með mér. Það er bagalegt að verða kalt á puttunum og því er gott að eiga mismunandi týpur sem hægt er að púsla saman og vera með í bakpokanum. Þunnir merino vettlingar er eins og föðurland fyrir puttana. Sannkölluð himnasending fyrir kalda putta. Það er mikill kostur að geta farið í þessa undir þykkari vettlinga og þurfa ekki að vera með bera putta í kuldanum ef við þurfum taka ytri vettlingana af okkur. Prjónaðir ullarvettlingar hafa margsannað notagildi sitt hjá okkur íslendingum í aldanna rás. Ég stend og fell með þeirri staðreynd að það eru fáir vettlingar með tærnar þar sem þæfðu ullarvettlingarnir mínir hafa hælana. Á blautum og vindasömum dögum koma skelvettlingar sér einstaklega vel – enda eru virka þeir nákvæmlega eins og skelfatnaðurinn. Verja okkur fyrir úrkomu og vindum. Við mælum með að taka þá aðeins stærri því þú vilt getað farið í aðra vettlinga undir. Fyrir köldustu dagana er gott að eiga skíðalúffur. Það er bæði hægt að fá belglúffur eða fingralúffur – þið getið lesið ykkur meira til um muninn á þeim hér

Göngusokkar koma einnig í mismunandi þykktum og ættum við í vetur að velja okkur þykkari göngusokka en yfir sumartímann. Hér er mikilvægt að velja sokka sem eru sérstaklega hannaðir fyrir útivist því annars geta beðið okkar hælsæri og blöður. Það er fátt sem skemmir góða göngu jafn hratt og ein lítil blaðra. 

Buff – þetta sem við elskum í laumi. Ullarbuff um hálsinn er næstum því skilda á köldum dögum. Ullarbuff er líka gott sem eyrnaband ef okkur er of heitt fyrir húfu. Húfa er annað sem nauðsynlegt er að eiga. Líkt og með flest annað er úrvalið gífurlegt.  Ull og acryl er góð blanda fyrir húfur og kostur er þær eru þykkari yfir eyrun.  Lambúshetta er ekki aðeins fyrir yngri börnin heldur geta þær komið sér einstaklega vel fyrir okkur fullorðna fólkið líka. Við þurfum hins vegar ekki að velja þessar með tveimur dúskum á kollinum (það má auðvitað) heldur er hægt að fá þunnar ullarlambúshettur sem geta komið sér einstaklega vel í slæmu veðri.

Látum kuldann ekki stoppa okkur til að njóta þess að vera úti. Klæðum okkur rétt – í lagskiptann fatnað og höldum af stað út í veturinn.

Af stað nú!

Ferðaáætlun 2025 er komin út!