Press "Enter" to skip to content

Hvernig á að nota göngustafi?

Göngustafir, eða fjórhjóladrifið eins og ég kýs að kalla þá, geta skipt sköpum í lengri göngum, sérstaklega ef þungur bakpoki fylgir með. Þeir hjálpa manni með jafnvægi, að bera þunga, bæði sinn eigin og bakpoka, þeir hjálpa manni upp og niður brekkur og síðast en alls ekki síst, að halda tempó á göngu. En eins og með margan annan búnað þá virkar hann ekki nema hann sé rétt notaður. Hér ætlum við að fara yfir nokkur mikilvæg atriði.

Stiltu stafina rétt! – En nú er rétt ekki endilega rétt…er þetta orðið nógu flókið? 🙂 Megin reglan er sú að hækka og lækka stafina til svo olnbogi sé í 90° þegar gengið er á jafnsléttu. Þetta er gert til þess að eiga auðveldara með að stinga stafnum niður og láta hann þannig vinna fyrir okkur. 90°reglan er þó ekki heilög og hér hef ég ávalt mælt með að hver og einn finni sína hæð. Persónulega hef ég olnbogan örlítið niður á við og hjálpar það mér við að „sækja á“ landslagið þegar ég geng.

Aðlagaðu stafina til eftir langslagi! – Hér er meint að hækka og lækka þá eftir þörfum, hvort sem maður er að klifra upp brekkur eða labba rösklega niður. Þegar farið er upp er gott að stytta aðeins í stöfunum svo þeir séu ekki of hátt stiltir. Það gerir okkur kleift að sækja meira og betur á landslagið. Þegar farið er niður brekkur er gert öfugt, stafirnir eru þá lengdir til. Það hjálpar við að bremsa okkur niður og dreifa álaginu af hnjánum. Þetta er því mjög gott fyrir þá sem eru veikir í þeim fyrir. Hérna er einnig gott að halda ofan á stöfunum með lófanum, ná þannig þunganum beint niður á þá. Og ekki má nú gleyma hliðarhalla, en þá er gott að hafa þann staf sem snýr niður brekkuna aðeins lengri og halda ofan á handfanginu með lófanum.

Haltu rétt í þá! – Þetta er hugsanlega það allra mikilvægasta. Á handfanginu á öllum stöfum er lykkja til að setja utan um höndina á sér. Hún er ekki einungis til að missa stafina ekki langt frá sér í halla heldur á hún sér nefnilega annað og stærra hlutverk. Við notum hana til að ná betra taki á stöfunum og eigum þannig auðveldara með að vinna með þá. Myndin hér að neðan útskýrir vel hvernig á að halda á stöfunum með lykkjunni en í stuttu máli þá setur maður höndina í gegnum hana að neðan og grípur um stafinn þannig að bandið komi yfir þumalinn og í gegnum lófan. Prófiði þetta núna og finniði muninn!

Munið bara að það er ekki til nein ein ríkisstilling – á langri göngu í fjölbreytu landslagi er maður að stilla þá til eða frá reglulega.

Af stað…og nú með stöfum!

Comments are closed.

Ferðaáætlun 2025 er komin út!