Press "Enter" to skip to content

Fossinn Glymur

Að ganga Glym er frábær skemmtun og skiptir árstíð litlu máli, það er alltaf hægt að sjá eitthvað nýtt og skemmtilegt á leiðinni. Að þessu sinni ætlum við þó að labba aðeins lengra en á toppinn sjálfan…og ekki gleyma handklæðinu.

Glymur felur sig í botni Hvalfjarðar og sést ekki frá bílastæðinu sjálfu. Þegar gengið er eftir göngustignum í nokkra stund fer þó að glitta meira og meira í hann þangað til að maður sér mest allt fallið hans, 198m hátt. Hann er tignarlegur og verður útsýnið betra og betra þeim hærra sem maður gengur.

Upphaf leiðarinnar

TIl að komast að hægri hlið hans, sú sem er fjölfarin og vel stikuð, þarf að fara yfir ánna neðst niðri. Þar er á sumrin gamall ljósastaur sem farið er yfir að hluta og vaðið restina af leiðinni. Hér er því gott að vera með vaðskó og handklæði með sér. Þegar komið er yfir hefst uppgangan og er hún tiltölulega brött. Leiðin er vel stikuð með keðju á einum tímapunkti. Hún er vel fær öllum sem eru í sæmilegu formi og best er að fara rólega upp.

Vaðið í upphafi

Á leiðinni eru fallegir útsýnisstaðir sem hægt er að labba út á og sjá ofan í gilið sjálft og fossinn. Ekki gleyma þó að líta tilbaka þar sem útsýnið yfir Hvalfjörð er frábært á leiðinni.

Útsýnið yfir Hvalfjörðinn

Þegar komið er á toppinn er gott að stoppa, taka myndir og njóta útsýnis. Við höldum nefnilega áfram og ætlum ekki sömu leið til baka.
Við göngum eftir ánni og komum á stað þar sem hægt er að fara yfir hana. Hér þarf að vaða ánna og þó hún sé grunn er mikilvægt að fara varlega þar sem vatnið er kalt og árbotninn ójafn. Þegar komið er yfir, búið er að þurrka sér og klæðast aftur í skónna er haldið niður á leið.

Glymur á leiðinni niður

Leiðin niður er ekkert síðri en upp. Að þessu sinni er gengið í miklu gróðri og umhverfið því ólíkt því sem var á leiðinni upp. Fossinn er nú á vinstri hönd og útsýnið beint ofan í botn Hvalfjarðar. Aftur er mikið um góða myndastaði og því nóg af stoppum. Þegar komið er niður á göngustiginn er honum fylgt svo til baka að bílastaðinu aftur þar sem göngunni lýkur.

Þessi hringur er um 7,5km og tekur um 3klst með stoppum. Heildarhækkun er ca 400m og gangan því þægileg og hentar öllum sem eru í sæmilegu gönguformi.

Af stað nú…allir á Glym!

Comments are closed.