Press "Enter" to skip to content

Úlfarsfell

Þó þetta sé ekki það hæsta í bransanum er Úlfarsfellið engu að síður eitt vinsælasta fjallið á höfuðborgarsvæðinu og notað af ansi mörgum daglega sem æfingarfjall. Í dag ætlum við að skjótast hratt upp á það.

Þar sem okkur þykir skemmtilegra að ganga frá Úlfarsárdal þá hefjum við gönguna þar, á nýju bílastæði sem komið hefur verið upp. Þar sem við ætlum að fá sem mest út úr þessari göngu þá förum við hratt yfir upp að fyrstu brekkunni, klettunum sem við förum upp. Hér er mikilvægt að hægja tempóið aðeins og labba þétt upp, alla brekkuna og upp á topp. Eða fyrri topp.

Leiðin upp á fyrri topp að vetri til

Af þessum toppi fær maður flott útsýni yfir höfuðborgarsvæðið, Kjalarnesið og hluta Reykjaness. Gangan hingað á toppinn tekur að öllu jöfnu 25-30 mín og því alveg upplagt að halda áfram, á þann næsta.

Útsýnið af fyrri toppnum

Við höldum áfram, göngum nú yfir slettan kafla upp að næsta klettabelti. Hér er genginn vegur og því lítið mál að fara þetta á góðum hraða aftur.

Slettan á milli tindanna

Eins og fyrr segir er slóðinn upp á seinni tind mjög góður og við stöldrum ekkert við hann, húrrum okkur upp á topp og njótum þess útsýnis sem hann hefur upp á að bjóða. Þar sem við erum enn hærra hér þá horfum við niður á fyrri toppinn og svo allt útsýnið sem í boði er, t.d. sjáum við nú alla leið upp á Hellisheiði. Á toppnum hérna er upplagt að taka nokkrar toppamyndir, muna bara a snúa í áttina frá loftnetinu.

Seinni toppurinn

Leiðin niður er sú sama og upp á seinni toppinn en svo skiljast leiðir okkar þegar á slettuna er aftur komið. Nú ætlum við að ganga veginn niður og alla leið á bílastæðið. Þannig göngum við hring og fáum enn meiri æfingu út úr þessari ferð.

Gengið niður af seinni toppnum

Í heildina er gangan um 4,5km og tekur okkur ca klukkustund að ganga rösklega. Heildarhækkun er um 270m og því mjög þægileg og skemmtileg ganga sem býður upp á glæsilegt útsýni í hverju skrefi.

 

Af stað nú…allir að skokka upp á Úlfarsfellið!