Press "Enter" to skip to content

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar, Móskarshnjúkar eða jafnvel Móskarðahnúkar…hvort sem við notum þá erum við að tala um tindana tvo sem liggja austan megin í Esjunni. Tindarnir sem virðast alltaf vera baðaðir í sólskini.

Vegurinn í dag er orðinn fær öllum ökutækjum

Inn í Mosfellsdalnum leynist þessi skemmtilega og krefjandi ganga. Ekið er inn í dalinn og beygt til vinstri við skiltið inn að Hrafnhólum. Sá vegur er keyrður í dágóða stund, alveg til enda þar sem bílastæðið er og gangan hefst. Vegurinn var eitt sinn mjög slæmur en í dag hefur hann verið malbikaður og því fær öllum bílum.

Stígurinn upp fjallið er greinilegur og vel stikaður enda mikið farinn. Þó getur hann verið íllsjáanlegur í vetrarfærðinni og því gott að vera búin að kynna leiðina vel fyrir sér áður.

Gengið er yfir litla brú í byrjun og eftir það hefst “brekkan” en hér er átt við að leiðin er ein löng brekka, alla leið upp á topp. Flötu kaflarnir eru ekki til staðar og því mikilvægt að fara rólega af stað, ná góðum hita í kroppinn til að forðast meiðsli. Við göngum í zik zak upp, þræðum stígana að fyrsta stoppi, stóru klettabelti þar sem oft er tekin stutt vatnspása. Hér sjáum við líka vel í hnúkana og leiðina upp á topp þeirra. Úr fjarska líta þeir ógnvænlega út en ekki örvænta, leiðin  á toppinn er greiðfær og þægileg.

Síðasti spölurinn í fjarska

Eftir stoppið er haldið áfram, gengið utan í hlíðum vestari hnúksins og upp í skarð sem liggur þar á milli. Útsýnið í skarðinu er fallegt, séð vel yfir í Kjós og niður í dalina.

Horft niður í Kjós

En við látum þetta ekki duga, höldum áfram upp á toppinn á eystri hnúknum, okkar markmiði. Hann er 804m hár og því smá spotti eftir.

Göngumenn ganga síðasta spölinn

Við göngum utan í honum, á lausu grjóti sem þarf að fara varlega í á leiðinni niður. Eftir um 15 mín erum við komin alveg upp á topp, stöndum á “nálinni” á hnúknum og horfum yfir allt landslagið undir okkur. Frá Þingvöllum og Nesjavöllum, yfir höfuðborgarsvæðið og Reykjanesið og alla leið út á Snæfellsnes á góðum degi. Útsýnið svíkur engan hér.

Séð af toppnum

Leiðin niður er sú sama og farin töluvert hraðar enda aftur…þetta er ein löng brekka sem nú snýr niður á við.

Í heildina tekur gangan um 3,5 klst og er 7km löng með um 660m heildarhækkun.
Þetta er skemmtileg ganga sem tekur vel í og því mjög góð æfing fyrir stærri og hærri fjöll í framtíðinni.

 

Af stað nú…allir að prófa Móskarðshnúka!