Press "Enter" to skip to content

Sköflungur á Hengilssvæðinu

Hengilssvæðið þekkja eflaust margir, það býr yfir mörgum skemmtilegum göngu- og hjólaleiðum sem vert er að skoða. Fjölbreytileikinn er mikill og allir ættu að geta fundið göngu við sitt hæfi. Hér er hægt að finna umfjöllun um eina í lengri kanntinum, alla leið upp á Vörðuskeggja. Kíkið á hana endilega. Í þessari færslu ætlum við að fjalla um eina styttri en þó alls ekki síðri, um Sköflung.

Sköflungur er um 3 km langur hryggur með hæsta punkt í 419m hæð yfir sjávarmáli. Það hljómar hátt en er það alls ekki þar sem svæðið sjálft liggur hátt uppi. Hryggurinn er afar fallegur með góðu útsýni til beggja átta þegar hann er genginn. Á enda hryggsins blasir svo við manni klettaborg, há, stæðileg og fyrirferðamikil.

Upphafið

Gangan hefst á bílastæðinu eftir að komið er upp á fyrstu hæðina eftir Nesjavallaleið. Eins og fyrr segir er hækkunin ekki mikil og því þægilegt að ganga þetta. Eftir að komið er upp á fyrstu hæðina blasir hryggurinn við og hefst gangan á honum. Farið er undir og í gegnum háspennumöstur sem er viss upplifun, hvort sem fólk horfir á það jákvætt eða neikvætt.

Gengið er í gegnum tvenn háspennumöstur í upphafi

Gangan á hryggnum sjálfum er ekki erfið og er slóðinn sjálfur vel sjáanlegur og hryggurinn breiður á flestum köflum. Þó skal ávalt hafa varan á þegar gengið er á hrauni eins og þessu þar sem það getur verið oddhvasst.

Klettaborgin blasir við manni í fjarska

Eftir um 3 km göngu, ca klukkustund eða svo er komið að klettaborginni sjálfri og eins og fyrr segir er hún ansi glæsileg. Hér ber að varast að príla upp á hana nema maður sé vanur, hún er nefnilega laus í sér á köflum ásamt því að vera brött. Hér er gott að tylla sér niður og fá sér nesti og njóta útsýnis.

Hægt er að velja um tvær leiðir til baka, annars vegar þá sömu og gengin var og hins vegar að ganga niður af hryggnum og ofan í Folaldadali. Við mælum með þeirri síðari því þá er genginn skemmtilegur hringur til baka að bílastæðinu. Þá er gengið niður af hryggnum, undir klettaborginni og er gangan tiltölulega þægileg, gott er að krossa hana niður. Eftir það er dalurinn genginn til baka, greið og góð leið, með Sköflunginn á hægri hönd og Jórutind og Háatind á vinstri. Hér er hægt að fylgja gömlum slóða alla leið til baka.

Horft til baka, eftir hryggnum með Folaldadal á vinstri hönd

Þessi hringur er í heildina um 6,5 km og tekur að öllu jöfnu um 2,5 klst með myndastoppum. Hann er mjög þægilegur og hægt að fara hvort sem er eftir vinnu á hröðu tempói eða um helgi og gera sér þá dag úr þessu, jafnvel að heimsækja fleiri skemmtilega staði á Nesjavöllum.

 

Af stað nú…allir á Sköfllung!

Comments are closed.