Press "Enter" to skip to content

Hengill – Vörðuskeggi

Hengillinn er svæði sem eflaust flestir hafa keyrt ómeðvitað framhjá á leið sinni yfir Hellisheiðina. Svæðið liggur á vinstri hönd ef keyrt er í austurátt í Hveragerði. Formlega göngusvæðið hefst fyrir ofan virkjun ON og liggur yfir Hengilinn í átt að Vörðuskeggja (803m), hæsta punkti á þessu svæði. Frá honum er gífurlega fallegt útsýni til allra átta, yfir Nesjavelli og Þingvelli, Esjuna, höfuðborgarsvæðið o.fl. Ef veður er gott sést alla leið yfir á Snæfellsnes.

Þó hér sé fjallað um eina leið á svæðinu eru þær óteljandi margar, mislangar og erfiðar. Þessi leið, Hengill – Vörðuskeggi – Hengill er tæplega 14km löng og um 630m hækkun á leiðinni. Þetta er því skemmtileg dagleið í grennd við borgina. Gengið er á slóðum alla leið og leiðin sjálf vel stikuð, þó hvetjum við göngugarpa alltaf að vera með GPS tæki við höndina. Leiðin liggur bratt upp frá virkjuninni en eftir það tekur við þægilegur slóði sem fylgt er alla leið að Vörðuskeggja.

Á leiðinni er mikið um myndefni, mjög mikið! Gerið því ráð fyrir þó nokkrum myndastoppum. Landslagið er breytilegt og á einum tímapunkti gleymir maður alveg hversu stutt frá höfuðborginni maður sé staddur. Þegar komið er að Vörðuskeggja liggur leiðin beint upp, brött og stutt brekka sem liggur alla leið upp á topp. Eins og fyrr segir er útsýnið mikið og til allra átta.

Þegar komið er niður af Vörðuskeggja aftur er hægt að velja um tvær leiðir til baka, sömu leið og komið var eða halda áfram og klára hringinn. Okkur finnst alltaf skemmtilegra að ganga í hring og því mælum við með því. Beygt er þá til vinstri við skiltið við Vörðuskeggja og haldið af stað. Eins og áður er leiðin stikuð og auðvel yfirferðar.

Gengið er núna niður hryggi og er niðurleiðin hröð, fram hjá heitum uppsprettum, leynifossum og öðrum skemmtilegum stöðum. Áður en komið er á slettuna sjálfa og síðasta sprett niður er gengið fram hjá sumarhúsi, er það í einkaeigu og hvetjum við alla til að virða það. Að lokum er gengið yfir grænu (að sumri) sléttuna og endar maður aftur á göngustígnum sem genginn var upp. Þaðan sést í bílastæðið og leiðarendan.

 

Eins og fyrr segir er þetta skemmtileg dagleið sem reyni á og vinnur á þolinu. Þetta er því frábær æfing fyrir lengri og stærri hluti.

Af stað!

Comments are closed.

Ferðaáætlun 2025 er komin út!