Press "Enter" to skip to content

Nú verður kalt!

Það viðrar vel til útivistar á morgun, laugardag, bjart veður, hægur vindur og……ískalt! Brrrrrrr!!! En með réttum fatnaði er kuldinn ekkert vandamál!

Það sem mestu máli skiptir þegar farið er út í kalt veður eins og spáð er á laugardaginn er að manni líður vel. Réttu lögin af hlýjum fatnaði hjálpa þar við og mikilvægt er að velja sér fatnað eftir hreyfingu. Sem dæmi er lítil ánægja í því að ganga upp bratta brekku í þykkustu úlpunni eða ganga í kringum eitt af stöðuvötnunum í borginni í þunna skeljakkanum sínum. Best er því að velja fatnað eftir hreyfingu. Og þar koma auðvitað þrjú lög fatnaðar til sögunnar.

Við byggjum ávalt á góðum grunni, innsta laginu. Ull ull og aftur ull…merino ull takk! Innsta lagið er svo mikilægt og ætti það ekki að gleymast um helgina. Ofan á það byggjum við síðan.

Fyrir brattar brekkur og temmilegan hraða viljum við leyfa líkamanum að sjá um að búa til hitann. Létt peysa og jakki ætti því að duga fyrir flesta. Líkaminn hitnar við átökin og fatnaðurinn sér um að halda honum. Á meðan á átökum stendur er hitatapið lítið og því ekki þörf á því að vera í þykkum fötum, þau leiða til meiri svita sem er alltaf óþægilegt. Munið bara að hitaframleiðslan á sér stað á hreyfingu, þegar stoppað verður í nesti á toppnum verður hitatapið mikið og því gott að hendast þá í auka jakka til að minnka það.

Ef um rólega göngu er að ræða þar sem átökin eru minni viljum við klæðasta betur, í fleiri og þykkari lög. Ullin alltaf fyrst, gott miðlag eins og flís- eða ullarpeysa og síðan ysta lagið sem gæti verið góður dún- eða primaloft jakki. Mikilvægast er að hafa í huga að átökin framundan eru lítil og því mun líkaminn ekki framleiða eins mikinn hita og áður, við leyfum fötunum því að vinna sína vinnu.

Hey já, ekki gleyma öllum aukahlutunum! Ullarsokkar, því kaldar tær geta eyðilagt góðan dag! Vettlingar og húfa og hugsanlega buff í vasanum ef það skyldi nú blása með hálsmálinu.

Njótið helgarinnar úti og látið kuldan ekki stoppa ykkur – góða helgi!