Press "Enter" to skip to content

Þrjú lög fatnaðar

Hvað þýðir það þegar útivistarfólk talar um að klæða sig rétt eða að „lagskipta“ fatnaði? Hafiði heyrt þetta áður? Í dag ætlum við að reyna að svara þessari og öðrum spurningum tengt efninu.

Það er fátt verra en að vera staddur úti of vel eða of illa klæddur og oft er það einnig hættulegt. Fötin hlífa okkur undan veðri og vindum, sól eða úrkomu og því ber að vera rétt klæddur hverju sinni, sérstaklega ef aðstæður eru þannig að erfitt er að hafa fataskipti eða langt til byggða. Fötin eru eitt af því sem ekki má klikka á.

En hvað er málið með þessi þrjú lög? Förum aðeins yfir þau.

 

Innsta lag
Hvar: Næst líkamanum
Hvenær: Alltaf
Hlutverk: Dregur raka frá húðinni og andar
Algeng efni: Pólýester (flís), merino ull eða hágæða gerviefni.

Innsta lag er eins og heitið segir, það sem er innst við líkamann og er hlutverk þess að anda og hrinda raka frá húðinni. Það heldur einnig á okkur hita. Hér mælum við með því að nota ull á kaldasta tímanum og færa sig svo yfir í léttari efni þegar fer að hlýna, t.d. dry fit efni eða þunnt flís. Hafið í huga að hér má alls ekki nota bómul vegna slæmra eiginlega efnisins við að hrinda frá sér raka og öndunnar. Bómull er því alveg bannaður og getur skemmt fyrir manni öll hin lögin þegar maður klæðir sig í. Enn og aftur, bómull er bannaður.

 

Miðlag
Hvar: Yfir innsta lag, millilagið
Hvenær: miðlungs- og köldu hitastigi
Hlutverk: Hitaeinangrun
Algeng efni: Pólýester (flís), merino ull, dúnn, primaloft og softshell

Miðlagið er lagið sem sér um alla vinnuna. Það kemur yfir innsta lagið og sér um að halda á okkur hita, hrinda frá innsta laginu rakanum og hefur oft á tíðum vatnsfráhrindandi áhrif. Hér skiptir máli að lagið taki í sig loft, t.d. eins og flís gerir. Við það að loftið komist inn í efnið verður það meira, þræðirnir bólnga upp og einangrunin verður meiri = meiri hiti. Hér er gott að vera t.d. í flíspeysu, léttum primaloft jakka eða jafnvel blöndu af hvoru tveggja, útgáfurnar eru margar og gott að finna því eitthvað sem hentar manni vel og er með góðum hreyfanleika.

Ysta lag
Hvar: Yfir grunnlag eða miðlag
Hvenær: Vindur og/eða rigning
Hlutverk: Ver okkur fyrir vindi og rigningu
Algeng efni: Gore-Tex, Neoshell, Gore windstopper, Polartec windbloc

Ysta lagið er það síðasta sem við förum í, yfir öll hin lögin. Þetta lag ver okkur gegn rigningu, snjókomu, vindi o.fl. Samhliða því að halda þessu öllu úti þá hleypir það raka út frá hinum lögunum, andar út. Þetta lag er eitthvað sem við göngum ekki alltaf í, notuð aðeins þegar þarf á að halda. Þessar flíkur endast því lengur en aðrar en jafnframt eru þær tæknilegri og dýrari. Hér er gott að velja skel sem hentar manni í sniðum, tækni eiginleikum og litum. Veljum vel og hugsum svo vel um hana. Athugið líka að þetta lag er ekki gert til þess að halda á okkur hita, aðeins að veita skjól undan veðri.

Það góða við að klæða sig upp í þrjú lög er það að maður getur þá klætt sig í og úr þegar það hentar, maður er ekki bundinn við “eina ríkisflík”. Þannig stjórnar maður klæðnaði eftir útivist og veðri og heldur réttu hitastigi á kroppnum.

Af stað nú…í þremur lögum!

Comments are closed.