Press "Enter" to skip to content

Mýtan um Snæfellsjökul

Fallegur, leyndardómsfullur, orkumikill og myndrænn….já og hættulaus, auðveldur og bara fjall. Þetta eru dæmi um lýsingar sem þessi magnaði jökull ber með sér. Og hann stendur svo sannarlega undir þeim fyrri lýsingarorðum. En ræðum aðeins þau seinni.

Jökullinn sem logar, sem við sjáum frá mörgum áttum á fallegum degi og sem hreinlega kallar á okkur, Snæfellsjökullinn rís út á enda nessins og ber sig vel. Hann hefur lengi verið talinn búa yfir orku, einhverjum kröftum sem erfitt er að útskýra en eitthvað sem svo margir finna. Og hann kallar á mann, á göngu-, skíða- og vélsleðafólk. Og þessu kalli hafa svo sannarlega margir svarað undanfarin misseri og ferðum fjölgað til muna á jökulinn. Það er frábært að sjá og í okkar huga eiginlega skylda allra íslendinga að heimsækja þetta svæði allavega einu sinni á ævi sinni.

Við mælingar – Summit Adventure Guides – mars 2020

En þessu kalli, þessari fjölgun ferða, hafa fylgt aðrar lýsingar í kjölfarið. Orð eins og hættulaus, auðveldur og að um aðeins fjallgöngu sé að ræða skjóta upp kollinum oftar og oftar. Það geta verið margar ástæður fyrir því, auðvelt aðgengi að misgóðum upplýsingum á netinu og samfélagsmiðlum, vandræðalausar ferðir o.fl. En orðrómurinn fer af stað og það gerum við líka.

1. maí 2019

Mýtan um að Snæfellsjökull sé hættulaus er röng, svo ótrúlega röng. Jökullinn er og verður (allavega um sinn) jökull og þeim fylgir alltaf einhver ferðahætta. Þessi svæði eru lifandi, þau hopa til og frá, opna sprungur eitt árið og loka öðrum það næsta. Það hrynur úr toppi hans, stórir ísbútar falla og renna niður hlíðina. Já og svo má auvðitað ekki gleyma toppabrún, þar sem menn hafa misst fóta og fallið niður. Jökullinn er fallegur en hann er ekki hættulaus og hann ber að nálgast með virðingu…og réttum útbúnaði. Jöklabroddar, ísexi, línur, belti, snjóhælar og sprungukitt. Þetta er hluti af staðalbúnaði í jöklaferðum og er listinn ekki öðruvísi á Snæfellsjökli. Svo er auðvitað reynsla eða góð leiðsögn mikilvæg líka. Hættulegustu aðstæðurnar eru ekki þær sem við sjáum eða erum búin undir, það eru þær sem við sjáum ekki og koma okkur í opna skjöldu.

Fjallaskíðahópur að nálgast toppinn – 2. maí 2020
Gönguhópur rétt undir toppnum – maí 2019

Reynslumiklir fjallaskíðahópar fara í línu við jökulbrún og skíða saman upp. Þannig tryggja þeir sér örugga ferð upp og ánægjulega ferð niður í bílinn aftur. Það sama gildir fyrir göngufólk sem gengur upp og virðir fyrir sér þetta stórbrotna landslag en veit á sama tíma að öryggið er alltaf á oddinum.

Á leiðinni niður

Nálgumst þessa perlu af virðingu og á móti mun hún verðlauna okkur með ógleymanlegum minningum. Hann kallar hátt á okkur…