Press "Enter" to skip to content

Lúxusinn á Everest

 

Himalaya tímabilið er hafið og þar sem undirritaður hefur mikinn áhuga á því er viðbúið að fyrsta færsla þessa nýja vefs fjalli um það.

Á hverju ári reyna hundruðir manna að komast á þennan hæsta tind heims og sigra í leiðinni fjallið, krossa við í boxið, tjékka það af listanum, taka hina fullkomnu selfie mynd og hvað sem þetta allt kallast. Áhuginn á fjallinu hefur farið vaxandi ár frá ári og með batnandi efnahag heimsins sjáum við fleiri og fleiri koma sér vel fyrir í grunnbúðum, þar sem fjallgöngumaður eyðir að öllu jöfnu 4-8 vikum í aðlögun.

 

„Að koma sér vel fyrir í grunnbúðum“ er mjög víðtækt hugtak og fer það algjörlega eftir þykkt veskis hvers og eins! Á sama tíma og sumir láta gott tjald, ágætis mat og sturtuferð einu sinni í viku duga (og hafa efni á) vilja aðrir lifa aðeins þægilegra lífi. Að vera nettengdur er orðið að kröfum flestra viðskiptavina á fjallinu, að vera með kokk sem eldar næringaríkan og fjölbreyttan mat, tíðari sturtuferðir o.fl. er að verða standart. Allt þetta kostar og samhliða meiri lúxus hækkar verðið á leiðöngrunum eins og búast má við. Gleymum ekki að grunnbúðir Nepal megin eru bornar inn í gegnum Khumbu dalinn á baki og jakuxum. Bekkurinn sem einn situr á kom því labbandi nokkrum dögum áður, vatnið sem drukkið er kom á baki jakuxa og….já þið fattið restina.

 

Tíbet megin er þetta þægilegra þar sem hægt er að koma keyrandi inn í grunnbúðir með allan farangur. Þar virðist svo vera að munaðurinn tæki nýjum hæðum í ár þar sem 7 Summits liðið hefur sett upp tveggja herbergja tjöld (ekki rugla því við tveggja manna) og Furtenbach frá Austurríki státar heimsins hæsta gufubaði!

 

…já klifurtímabilið er bara rétt að byrja og skemmtilegu fréttirnar eru farnar að streyma inn. Við fylgjumst spennt með!

 

Comments are closed.