Press "Enter" to skip to content

Gönguskór og drulla

Október er að syngja sitt síðasta og veðrið á erfitt með að ákveða sig, einn daginn er allt þurrt og þann næsta stendur maður í bleytu og drullu!

Gönguskór og drulla fara álíka vel saman og hnetusmjör og sulta…frábær blanda eftir að maður kemst yfir “ojjj” tímabilið. En til að geta drullumallað um fjöll og hæðir þarf að hugsa vel um skóna, sérstaklega á þessum millibilstíma sem við erum á núna.

Hérna eru nokkrir punktar sem gott er að hafa á bakvið eyrað:

Aldrei að ganga frá blautum skóm upp í skáp. Mikilvægt er að þurrka þá vel eftir hverja göngu, bæði að utan og innan. Gott er t.d. að setja dagblöð ofan í þá til að draga allan rakan úr skónum. Leyfa þeim síðan að standa á heitum stað, t.d. undir ofni.


Ekki geyma gönguskó ofan á ofni. Alltof mikill hiti mun þurrka leðrið mun hraðar og skórnir fara að bretta upp á sig, verða harðir og óþægilegir. Endingin styttist til muna.


Taktu innleggið úr og reimarnar af. Þetta er frábært að gera ef skórnir hafa blotnað mjög mikið. Með því að taka innleggið og reimarnar opnum við skóna ennþá betur og leyfum heitu lofti að streyma um þá og þurrka. Að sama skapi þurrkum við innleggið og reimarnar hraðar.

Bera á…aftur og aftur. Til að viðhalda góðu lífi í skónum þarf að bera réttu efnin á þá. Leður fær sitt og rúskinn fær sitt, ekki ruglast á þessu tvennu. Og er hægt að bera of mikið á gönugskó? Já. Er mikil hætta á því? Nei. Þetta er einfalt, ef þér finnst skórnir verða orðnir þurrir, lítið líf í efninu, þá er komið að því að bera á þá. Merki um að tími sé kominn á áburð er t.d. þegar leðrið er farið að veðrast, skórnir voru upphaflega dökkir en eru í dag orðnir ljósir. Góð regla er að bera alltaf á gönguskó fyrir hvert tímabil, sumar, vetur , vor og haust. En ef gengið er mikið og skórnir mikið notaðir, sérstaklega í bleytu og drullu, þá er gott að bera oftar á þá til að missa ekki eiginleika vatnsvarnar og útlits.

Hérna má lesa aðra grein um viðfangsefnið fyrir þá sem eru að spá spekúlera meira í þessu.