Góðir gönguskór eru gulls ígildi! Þeir eru fjárfesting og eitthvað sem skal huga vel að þegar valið er. En eftir að búið er að velja þá, ganga til og nota vel….hvernig á eiginlega að þrífa þá og hugsa um? Hér ætlum við að fara yfir nokkur mikilæg atriði sem munu lengja líftíma skónna.
Þrífðu þá eftir hverja drulluga notkun – Það getur verið freistandi að koma inn eftir langa og blauta göngu, henda skónnum inn í bílskúr eða þvottahús og fara í heita sturtu. Hver þekkir ekki þessa tilfiningu. En eftir svona göngu eru skórnir okkar drullugir og krefjast þess að komast í bað líka. Það er því mikilvægt að þrífa þá vel. Gott er að byrja að skola mestu drulluna af, taka svo bursta eins og uppþvottabursta og nudda þá vel upp úr vatni, þannig náum við mestu drullunni af. Eftir það skal skola aftur og þurrka með viskustykki mestu bleytuna af. Í framhaldi skal setja þá undir ofn, EKKI ofan á hann, og leyfa þeim að þorna hægt yfir nótt. Með þessu móti höldum við þeim hreinum og fínum og lengjum líftíma filmunnar sem heldur vökva úti.
Þurrkum vel eftir hverja notkun – Ég hef sett mér það að reglu að þurrka skónna mína vel eftir hverja notkun, líka þó skórnir sjálfir eru ekki blautir. Það geri ég til að losna við rakan sem myndast inn í þeim eftir langa notkun. Ég tek alltaf innleggið úr skónnum, opna þá vel með því að reima frá og set þá nálægt ofni á gólf. Þannig þornar rakinn hægt og rólega án þess að skemma skónna sjálfa. Þeir verða alltaf ferskir eftir hverja notkun. Ef komin er ólykt í þá er gott að spreyja með skóspreyji eins og t.d. þessu.
Alls ekki þurrka skó á of heitum stað – Það fer ílla með húðina (rúskin eða leður) á skónum ef þeir eru þurrkaðir á of heitum stað, t.d. ofan á ofni. Húðin á það til að brotna og þorna upp og sólinn bognar upp oft á tíðum. Hér er því mikilvægt að leyfa skónum að þorna hægt, á stað sem ekki er of heitur, t.d. undir ofni. Alls ekki setja þá ofan á ofn í langan tíma. Gott er t.d. að vera með auka skó í bílnum sem hægt er að klæða sig í eftir göngu, setja svo gönguskónna sjálfa á mottuna við farþegasætið og leyfa miðstöðinni að blása á þá á leiðinni heim. Enn og aftur, með þessu móti lengist líftíminn til muna.
Notaðu þar til gerð efni við þrif og viðhald – Ef skórnir eru mjög drullugir eða langt líður á milli þrifa er gott að nota þar til gerða sápu til að skrúbba þá vel. Það eru til mörg efni en mikilvægt er að velja eitthvað sem er ekki of sterkt svo það eyði ekki áferðinni á leðrinu. Sápa eins og þessi frá NikWax er mjög góð og hentar vel. Sjálfur nota ég sápuna af og til, ekki í hvert skipi þó. Ef skórnir eru mikið notaðir þá þríf ég þá með sápunni á ca 1-2 vikna fresti. Eftir að búið er að sápa þá og þurrka er gott að endurnýja vatnsheldnina í þeim með því að spreyja eða bera á þar til gerð efni, t.d. þetta hérna frá NikWax. Sjálfur geri ég þetta um leið og ég þríf skónna með sápu, ef ég geri það ekki þá ca einu sinni í mánuði. Með þessu móti endurnýjar maður vatnsheldnina aftur, mýkir leðrið og dregur fram meiri lit í skónum. Allt auðvitað gert til þess að lengja líftímann.
Að lokum mælum við með því að þrífa og bera vel á skóna í upphafi sumars, göngutímabilsins og í lok þess, áður en þeir fara í geymslu fyrir veturinn (ef um sumarskó ræðir). Þannig haldast skórnir ávalt eins og nýjir og tilbúnir í næsta ævintýri!
Comments are closed.