Press "Enter" to skip to content

Selvogsgata

Fyrir ofan Hafnarfjörð, milli Bláfjalla og Krýsuvíkur, liggur falin perla sem nauðsynlegt er að skoða aðeins betur. Við kynnum til sögunnar næstu A-til-B göngu, Selvogsgötu.

Selvogsgata er fórn þjóðleið sem liggur frá Selvogi og Hlíðarvatni og alla leið til Hafnafjarðar. Hún var mikið farin af fólki sem átti leið sína í kaupstaðinn í gamla daga en einnig tengist hún Brennisteinsfjöllum og þeim námum sem þar voru.

Vegurinn frá Leiðarenda að upphafsstað göngu

Þó leiðin hefjist formlega í Hafnarfirði ætlum við að hefja hana fyrir ofan bæinn, bakvið Helgafellið, á bílastæðinu við hellinn Leiðarenda. Að þessu sinni komumst við ekki nær á bílum þar sem búið er að loka veginum í átt að fjöllunum. Við leggjum því í hann þaðan, með bakpoka og nesti. Gengið er eftir veginum um 4 km þegar komið er að vegstiku sem beinir manni í rétta átt, í átt að Stóra Bolla, Mið Bolla og Þrí Bollum. Fjöllin standa tignarleg í fjarska og draga mann að sér, græn á litinn og falleg. Við göngum upp að þeim og á milli, leiðin er vel stikuð og vörðuð og því lítið mál að rata á góðum degi. Eins og vanalega minnum við þó alla á að vera með réttan útbúnað með sér.

Bollarnir í fjarska
Hraunið og hellarnir á leiðinni

Leiðin er þægileg í hækkun og sú mesta er tekin strax hérna á milli bollana. Hér er líka gott að líta aftur og virða fyrir sér útsýnið, yfir Helgafellið, Hafnarfjörð og alla leið út á Snæfellsnes. Fegurðin leynir sér ekki hérna! Svo höldum við áfram eftir nú grýttum stíg. Við fylgjum stikum og vörðum og sjást þær vel í fjarska, þær eru stórar og fjarska fallegar.

Horft til baka

Við erum nú komin á sléttu og göngum meðfram Brennisteinshrauni. Þetta hraun….tja, hvað skal segja…það er ansi magnað og vert að stoppa hér og taka nesti. Njóta allra þeirra andlita og tröllkalla sem maður sér.

Brennisteinshraun séð úr lofti

Eftir nestið verður leiðin bein, beint strik í átt að sjónum sem við förum nú að sjá í. Sjóndeildarhringurinn gengur saman, sjór og himinn og maður verður ringlaður. En örvæntið ekki, það er nóg eftir af leiðinni. Undirlagið hér er orðið aftur gróft, hraun og hellur og því mikilvægt að huga vel að skrefum (og vera vel skóaður) en horfa til allra átta líka og njóta.

Nú förum við að sjá meira og meira í Hlíðarvatnið, þar sem farið okkar ætti að bíða. Eina sem eftir stendur er að ganga í gegnum afar fallegt gil og niður mjög bratta brekku. Sem betur fer er hún vel gróin og því ansi skemmtileg! Hér mælum við með því að taka síðasta stoppið, smella af nokkrum myndum af vatninu og halda svo áfram í teygjur og farið heim.

Hlíðarvatnið í fjarska
Bara hlíðin eftir!

Þetta er frábær leið sem gaman er að fara að sumri sem vetri, þó svo sumarið bjóði upp á stærri litapallettu og meira útsýni. Hún er 18 km löng frá bílastæðinu við hellinn Leiðarenda. Hækkunin er um 300m en lækkunin 400m. Á góðum degi með myndastoppum ætti hún að taka um 5-6 klst.

Bláa línan

Af stað nú…kíkið á þessa perlu í nágrenninu okkar!