Press "Enter" to skip to content

GPS úr – er það nóg?

Við lifum á tæknitímum þar sem framþróun er hröð og ný tæki koma ört út og auðvelda okkur lífið. Þar eru heilsu- og GPS úr ekki undanskilin. Þróunin í þeim geira hefur orðið gífurleg og í dag er hægt að vera með fullkominn æfingafélaga á höndinni sem fylgir manni hvert skref…og fylgist svo með manni sofa líka!

Mörg þessara úra koma nú með korta- og rötunarfítusum sem auðvelda okkur að fylgja leiðum, á áfangastað eða til baka. Þetta er frábær viðbót við þessi litlu tæki og getur hún oft skipt sköpum þegar á reynir. En er hún nóg? Getum við nú farið að skilja stóra GPS tækið okkar eftir heima og ferðast léttar um fjöll og hálendi? Einfalda svarið er nei.

Þessi litlu úr eru frábær til síns brúks. Þau sýna okkur allar helstu upplýsingar á ferðinni, tíma, lengd, hækkun, hraða o.fl. o.fl. Það sem þau gera einnig er að fylgja leiðinni okkar og búa hana til jafnóðum og við hreyfum okkur (trakka). Með því móti er hægt að skoða leiðina eftirá, greina til gagns eða geyma. Nú, svo er auðvitað hægt að fylgja henni til baka ef út í það er farið.

En litlu og þægilegu úri fylgir lítill skjár, lítið batterí og minna loftnet. Það er í raun minni útgáfa af GPS tæki.

Lítill skjár gerir okkur erfiðara fyrir að skoða leiðina til hlýta og fara eftir henni. Lítið batterí þýðir að endingin er styttri á milli hleðslna. Hún er síðan ennþá minni þegar kemur að köldu loftslagi og sem dæmi getur hún farið niður um allt að helming í miklu frosti. Gallinn hér er sá að ekki er hægt að skipa um rafhlöður á meðan á útivist stendur, einungis hægt að hlaða. Vegna smæðar sinnar eru úrin síðan með góðu loftneti, en ekki eins góðu og stærri GPS tæki. Nákvæmnin er meiri í tækjunum og hægt að rata niður á aðeins örfáa metra með þeim.

Eins og lesa má eru úrin frábær viðbót við núverandi búnað okkar – en þau koma ekki í staðinn fyrir hann. Úrin eru einföld í notkun, skemmtileg og veita okkur meiri innsýn inn í það sem við erum að gera hverju sinni. En einfaldleikanum fylgir það að þau eru smærri og ekki eins áreiðanleg og stærri GPS tækin. Tækin eiga ennþá að fylgja okkur út um allar trissur og vera staðalbúnaður í bakpokanum hverju sinni.

Aðra grein um GPS má finna hér.