Press "Enter" to skip to content

Ein spurning, hvað á ég eiginlega að taka með mér á Fimmvörðuháls?

Vinsældir gönguleiðarinnar yfir Fimmvörðuháls ætla engan endi að taka og svo virðist sem þorri landsins ætli að nýta sér þetta sumar til að ganga þessa margrómuðu leið. Skiljanlega segjum við – enda kvittum við óhikað undir að þetta sé ein af fallegri dagsleiðum landsins.  25 km, 1000metra og 8-11 klukkutímar af magnaðri íslenskri náttúru – sandur, gróður, klettar, hraun, fossar, fjöll og jöklar. Þetta er gönguleið sem enginn ætti að láta ófarna. Jafnvel að fara hana oftar en einu sinni. Slík er fegurðin. En við ætlum ekki að skafa neitt af því. Leiðin er löng og hækkunin mikil þó hún dreifist nokkuð vel og sé þægileg á fótinn. Það ættu því allir að æfa sig fyrir þessa göngu. Það geta allir farið Fimmvörðuhálsinn, spurning er hins vegar hversu vel langar þér að líða á meðan á göngu stendur og hversu fljótt viltu jafna þig eftir að göngu lýkur? En gönguformið ætlum við ekki að ræða í dag því það er að fleiru að hyggja fyrir gönguna en formið. Búnaður og nesti skipta hér miklu máli og höfum við orðið vör við margar spurningar varðandi þetta tvennt. Því ætlum við í dag, að fara yfir þessa hluti.

Byrjum á búnaðinum

Við þekkjum það öll sem höfum búið á Íslandi eða eytt hér meira en tveimur sólarhringum að veðrið breytist fljótt. Þegar komið er upp á hálendi geta þessar breytingar gerst enn hraðar.  Við hefjum jafnvel göngu á láglendi í stuttbuxum, búin að maka á okkur sólarvörn og sólgleraugun komin á nefið en þegar ofar er komið getur hæglega skollið á úrhellis rigning, blindbylur eða svarta þoka. Þá er vissara að vera vel búin og ætti að sjálfsögðu enginn að fara án leiðsagnar eða vera án GPS tækis eða korts og áttavita (og þá að sjálfsögðu að kunna að nota þessar græjur, ekki aðeins til að vera töff á instagram myndinni).  En færum okkur yfir í fatnaðinn. Á leiðinni er gengið á ýmiskonar jarðvegi, mjög marga kílómetra og í mjög marga klukkutíma. Því er mikilvægt að vera í góðum gönguskóm sem þið eruð vön að nota og mjúkum göngusokkum. Göngufatnaður í upphafi göngu fer eftir veðri en ef haldið er af stað í stuttbuxum er mikilvægt að vera með göngubuxur í bakpokanum. Það sama á við um efripartinn, langermabolur á alltaf að vera með í för. Ullarbolur er alltaf góður valkostur enda hentar ullin vel í hvaða veðri sem er þar sem hún hefur þann frábæra eiginleika að halda okkur heitum þó bolurinn blotni. Ullina er hægt að fá í ýmsum þykktum og ermalengdum.

Það sem ætti þó alltaf að vera með í bakpokanum, sama hvernig viðrar á bílaplaninu við Skógarfoss, er:

Vind- og vatnsþéttur jakki og buxur (það eru ekki gerðar kröfur á að splæst sé í glænýja 3laga GoreTex skel heldur að hér sé á ferð jakki og buxur sem halda vindi og regni). Þetta notum við þegar fer að hvessa eða byrjar að rigna.

Ullarpeysa, flíspeysa eða primaloft úlpa. Í nestisstoppum getur verið gott að henda yfir sig peysu eða jakka til að kólna ekki of mikið. Eins ef veðrið versnar.

Legghlífar. Hluta af leiðinni milli Baldvinsskála og Magna og Móðu er gengið á snjó.  Ef göngubuxurnar þínar ná hinsvegar vel yfir skóna getur það sloppið til.

Vettlingar, húfa og buff eru nauðsynlegir ferðafélagar í bakpokanum þar sem við vitum aldrei hvernig íslenska veðrið ætlar að haga sér þann daginn.

Annað: Sólarvörn, varasalvi, sólgleraugu, sjúkrataska (sjá færslu um Sjúkratöskuna), salernirpappír og plastpoki fyrir notaðan pappír (aldrei að skilja neitt eftir sig), göngustafir og fyrrnefnt GPS tæki, kort eða áttaviti.  Hleðslubanki svo síminn bregðist okkur ekki og við getum haldið áfram að taka myndir því nóg er að myndefni alla leiðina.

Góður bakpoki er gulls ígildi.  En, að okkur vitandi, er enginn poki sem heldur alveg regni. Kíkið því í pokann ykkar og skoðið hvort þar sé að finna regnhlíf. Ef ekki getur verið ráð að setja auka fatnað í plastpoka eða vatnshelda poka.

En vindum okkur í það sem okkur finnst best.

Nestið

Ó hvað það er gott að setjast niður með marga kílómetra að baki og draga upp ljúfengt nesti. Í nestinu þýðir enga nægjusemi eða hófsemi. Betra er að vera með aðeins of mikið en of lítið. Dvölin á fjöllum getur alltaf orðið lengri en plön gera ráð fyrir og þá getur verið gott að eiga smá auka bita.

Þegar gengið er upp frá Skógum er farið framhjá 23 fossum. Það er hægt að næla sér í vatn á leiðinni en síðasti möguleiki á því er við síðasta fossinn. Þá eru eftir u.þ.b 18 km. Við mælum með að vera ekki með minna en eins líters brúsa jafnvel tvo slíka og fylla á. Hitabrúsi með heitu vatni fyrir kakó, kaffi eða te er líka hentugt.

Hvað á ég vera með í nesti? Hvað þarf ég mikið nesti? Þessar spurningar fáum við oft og ætlum við því að gefa ykkur hugmyndir af því nesti sem við tökum með í þessa göngu. Við gerum ráð fyrir tveimur lengri stoppum og nokkrum minni bitastoppum. Nestið viljum við að veiti okkur orku og standi vel með okkur restina af ferðinni.  Hugum því að hversu næringaríkt og orkumikið nestið er.

Góð samloka úr grófu brauði.

Hugmynd af matseðli:

Tvær flatkökur með smjöri, osti og hangikjöti (pepperoni, kjúklingaskinka, og parmaskinka er líka vinsæll kostur).  Fyrir þá sem ekki borða kjöt eru að sjálfsögðu fjölmargir aðrir möguleikar á áleggi en kjötmeti.

Eina til tvær samlokur úr t.d Lífskornabrauð með smjöri, osti og papríku.  Af fenginni reynslu mælum við alls ekki með fransbrauði og gúrku. Það verður fljótt slepjulegt og ólystugt. Og það getur bara eyðilagt ferðina. Við ætlum alveg að vera svo dramatísk. Veljið frekar grófara brauð og álegg sem er ekki jafn vatnskennt og gúrka og tónmatur.

Hnetumix. Bæði hægt að kaupa tilbúið nú eða búa til sitt eigið og setja þá nákvæmlega það sem manni þykir best í pokann. Til að gefa ykkur hugmyndir þykja möndlur, kasjúhnetur, pekanhnetur, döðlur, súkkulaðirúsínur eða súkkulaðibitar, kókosflögur og gojiber góð blanda. Hnetumixið er gott að hafa í litlum pokum og geyma í vasa á bakpokanum sem auðvelt er að komast í án þess að þurfa að stoppa og taka af sér pokann.

Eitt epli eða niðurskorið mangó eða papríka hafa bjargað mannslífi upp á fjalli (eða alla vega geðheilsu, þrótti og viljanum til að klára síðustu metrana).

Í pokanum okkar eru einnig alltaf orkustykki eða súkkulaðistykki eins og Snickers, Bounty eða Mars sem hægt er að grípa í ef orkan fellur skyndilega.

Þetta eru aðeins hugmyndir en listinn er nokkurnveginn ótæmandi. Kexkökur, bollasúpur, pastasalat, hjónabandssæla, kjúklingalæri, harðfiskur og lifrapylsa hafa einnig sést í nestisstoppum. Það sem skiptir allra mestu máli er að velja nesti sem manni þykir gott og nesti sem helst lystugt í marga klukkutíma í bakpokanum. Gott nesti sem manni hlakkar til að borða verður einfaldlega enn betra þegar maður sest niður, finnur þreytuna líða úr fótunum og horfir yfir fallega landið okkar um leið og bitið er í samlokuna. Himneskt.

Gluggafoss. Sá síðasti af 23 fossum

Fimmvörðuháls er á færi allra að fara. Með regulegum æfingum fyrir göngu, réttum búnaði og góðu, orkuríku nesti verður upplifun okkar af göngunni enn betri, okkur líður betur á göngunni sjálfri og njótum því upplifuninnar frekar.  Því trúið okkur – hún er ógleymanleg.

Jæja! Af stað nú – búnaðurinn og nestið í pokann, gönguskórnir á fæturna og sólgleraugun á nefið. Nú þrömmum við yfir Fimmvörðuhálsinn.