Press "Enter" to skip to content

Skyndihjálpartaskan

Líkt og við öll vitum gera slys og óhöpp ekki boð á undan sér en þegar þau gerast er gott að hafa vaðið fyrir neðan sig og getað brugðist við með réttum hætti.

Það kannast flestir við að hafa fengið blöðru undan nýjum skóm. Það er agalegt, óþægilegt og sársaukafullt. En þegar litla blaðran fær að blómstra á hælnum á þér lengst upp á fjalli því þú ert ekki með plástur til að setja yfir, getur það orðið skelfilegt. Hrikalegt jafnvel. Því ætlum við að fjalla um skyndihjálpartöskuna í dag. Hvað þykir gott að hafa með sér þegar bakpokanum er skellt á bakið og haldið af stað á vit ævintýranna.  

Skyndihjálpartaskan ætti allaf að vera með í bakpokanum en stærð hennar fer kannski eftir umfangi hverrar ferðar fyrir sig. Nokkrir plástar og verkjalyf gætu dugað þegar haldið er á fjöllin og fellin í kringum heimabæ þinn en ef haldið er af stað í lengri ferðir þar sem leiðin heim eða til byggða er löng er vissara að vera betur búinn. Það geta allir lent í því að hrasa um stein og fá skurð á hné eða hendur nú eða fá nuddsár og blöðru eftir skóna þegar fæturnir þrútna í hitanum eftir marga klukkutíma göngu. Réttur búnaður í bakpokanum getur oft komið í veg fyrir að slík minniháttar meiðsli verði til þess að snúa þurfi við fyrr en plön gera ráð fyrir.

Í flestum útivistarbúðum og hjá Rauða krossinum er hægt að kaupa tilbúna skyndihjálpartösku þar sem finna má allt það helsta sem þarf.  En einnig er hægt að fara í næsta apótek og kaupa sjálfur inn þar sem þarf og búa til sína eigin tösku.

Þessi listi er ekki tæmandi en þetta er það sem gott þykir að hafa í töskunni:

– Hælsærisplástur eða gervihúð (t.d. frá Compeed Second skin)
– Venjulegir plástrar í mismunandi stærðum
– Skurðsáraplástrar (ræmur til að loka litlum skurðum)
– Sáragrisjur 2-4stk (til í mismunandi stærðum)
– Sárabindi
– Sárabögglar 1-2 stk (ef það blæðir mikið úr sári)
– Heftiplástur
– Einnota hanskar
– Verkjalyf og bólgueyðandi lyf (sem þið hafið notað áður)
– Íþróttateip
– Brunagel (t.d Burn free)

Sólarvörn og varasalvi með sólarvörn í er einnig góður ferðafélagi í bakpokann þegar sólin lætur óvænt sjá sig – þrátt fyrir að veðurspáin hafi ekki gert ráð fyrir henni.  Eins og stundum gerist á Íslandi.

Við mælum með að skyndihjálpartaskan sé alltaf í vatnsheldum pokum. Blautir plástrar eftir úrhellisrigningu eða slyddu gera lítið gagn (það höfum við lært af biturri reynslu). Hægt er að nota ziplock poka úr Ikea, rennda plastvasa úr næstu bókabúð eða vatnshelda poka (t.d. frá Exped) sem fást í flestum útivistarbúðum.

Að lokum minnum við á hægt er að koma í veg fyrir ýmislegt áður en haldið er af stað í langa göngu eða hlaup.  Með því að teipa helstu álagssvæði á fótum er hægt að koma í veg fyrir nuddsár eða blöðrur. Ef settur er hælsærisplástur þykir ráðlagt að setja ræmu af íþóttateipi yfir til að koma í veg fyrir að plásturinn færist úr stað þegar fæturnir verða rakir.  Þetta ráð á einnig við ef setja þarf plástur á fætur í miðri ferð.

Og eitt enn að lokum – verum örugg þegar við ferðumst um landið og skiljum ávallt eftir okkur ferðaáætlun. Eitt sms til vinkonu, vinar, maka eða foreldra í upphafi ferðar tekur ekki nema nokkrar sekúndur en getur sparað heilmikinn tíma ef neyðin verður stærri.

Hjá Save Travel er hægt að skilja eftir ferðaáætlun sem nýtist Slysavarnafélaginu ef hefja þarf leit ef eitthvað kemur upp á í ferðinni. 

Appið 112 Iceland er einnig auðvelt í notkun en með því skilur maður eftir sig slóð, nokkurskonar brauðmola, sem notaðir eru ef þarf.

Jæja skyndihjálpartaskan í bakpokann og af stað!