Press "Enter" to skip to content

Lægðir, rok og góður vindjakki

Nú þegar haustið er mætt af krafti með sínum gulu og rauðu veðurviðvörunum er vert að kíkja í fataskápinn og sjá hvaða jakki mun standa sig best í því að verja okkur fyrir kalda vindinum.

Hvað er vindjakki og hvaða hlutverki gegnir hann? Eins og orðið bendir á er vindjakki flík sem ver okkur fyrir vindi, hann er einhverskonar skel utan um restina af fatnaðinum okkar með það hlutverk að hleypa vindi ekki í gegn. Einfalt. Eða hvað?

Vindjakkar koma í mörgum tegundum og úr mismunandi efnum. Þeir hafa einnig mismunandi eiginleika fyrir utan að verjast vindi. Sumir eru mjúkir og aðlagast líkamanum vel en halda ekki vatni öðru en léttum úða. Aðrir eru mun stífari og halda vatni mjög vel en eru ekki eins þægilegir í notkun og oft þyngri. Þessu tvennu má skipta í mjúka skel (soft shell) og harða skel (hard shell). Þegar talað er um skeljakka eða 3ja laga skel í almennu tali er verið að meina harða skel.

Cintamani Melur mjúk skel

Mjúkir skeljakkar eru frábærir vindjakkar þar sem þeir eru léttir, mýkri og hindra ekki hreyfigetu. Þar sem efnið er mjúkt aðlagast það betur líkamanum og er hröð yfirferð á fjöllum lítið mál. Þeir eru hins vegar vatnsfráhrindandi, þ.e.a.s þeir hrinda frá sér léttum úða eða rigningu en eru ekki vatnsheldir. Þeir munu blotna í gegn þegar líður á rigninguna eða snjókomuna og því ekki ráðlagðir þegar þannig veður er í kortunum.

Mountain Equipment Odyssey hörð skel

Harðir skeljakkar eru akkúrat öfugt. Þeir eru vind- og vatnsheldir. Ef spáð er rigningu eða snjókomu ofan í vindinn sem við ætlum út í mun þessi skel vernda okkur. Efnið er stífara og harðara og því er hreyfigetan ekki eins “þægileg” og í mjúkri skel. Þessir jakkar eru tæknilegri og því einnig með hærri verðmiða en hér er horft frekar til framtíðar heldur en til tískufyrirbrigða. Með góðu viðhaldi og reglulegum þvotti er hægt að lengja líftímann til muna.

Að lokum er gott að hafa í huga að vindjakki er frábær flík til að verjast vindi og veðri, hann er ekki góður til að halda eða búa til hita. Líkja má jakkanum við ytri himinn á tjaldi, hann ver restina af tjaldinu fyrir veðri og vindum en hann býr ekki til hita.
Til að okkur líði vel í vindasömu veðri þurfum við að para jakkann við restina af fötunum, gott mið- og innsta lag af fatnaði s.s. ullarbol og flíspeysu. Jakkinn mun sjá um vindinn.

Af stað nú, út í vindinn!