Press "Enter" to skip to content

Lægðir og vídjókvöld!

Nú þegar hver lægðin á fætur annarri gengur yfir landið þá er gott að hella upp á heitt súkkulaði og kíkja hvað fjalla-sjónvarpið hefur upp á að bjóða!

Við erum með tillögu að fjórum frábærum titlum sem hafa nýlega komið út. Þessir mega ekki fara fram hjá ykkur!

14 Peaks: Nothing is Impossible
Myndin fjallar um hreint út sagt ótrúlegt afrek fjallamannsins Nimsdai Purja eða Nims eins og hann er kallaður í heimalandi sínu, Nepal. Hann leggur af stað á 14 hæstu tinda heims með nýtt hraðamet í huga. Myndin er stútfull af frábæru efni, “beint” af kúnni, sem sýnir aðstæðurnar hverju sinni.

Jurek
Ævi- og fjallasaga Jerzy Kukuczka, eins fremsta fjallamanns síns tíma. Fjallað er um uppeldisár hans í Póllandi, hans mikla áhuga á fjallamennsku og þá miklu baráttu um fjöllin sem hann herjaði við Reinhold Messner. Merkileg saga um mann sem ýtti sér alltaf lengra og lengra.

The Alpinist
Þessa er hægt að sjá í bíó um þessar mundir og er það eiginlega skylda! Saga Marc-André Leclerc, lítt þekkts fjallamanns sem hreinlega lifði fyrir fjöllin og það einfalda líf sem þeim fylgdi. Það var meðal annars ein ástæðan fyrir því að hann var svo lítið þekktur. Hann eyddi litlum tíma í að sýna frá sínum mögnuðu afrekum, hafði ekki áhuga á auglýsingasamningum og vildi helst gera hlutina einn á sínum forsendum. Söguþráður myndarinnar nær yfir langt tímabil og fær áhorfandan til að upplifa allskonar tilfinningar!

DOO SAR: A Karakoram Ski Expedition Film
Hver man ekki eftir Andrzej Bargiel sem var fyrstur til að skíða niður fjallið K2…já SKÍÐA NIÐUR! Nú er komin út ný mynd frá honum og hans teymi sem fjallar um leiðangur til Pakistan, inn að Karakoram fjallgarðinum. Skíðin eru með í för enn eina ferðina, brekkrunar brattari og spennan ennþá meiri! Ekki skemmir fyrir ótrúlegt myndefni tekið með drónum.

Hellið upp á heitt súkkulaði og náið í teppið, það er kósíkvöld í kvöld!