Press "Enter" to skip to content

Útkall! Það er komið eldgos!

Margir ætla eflaust að leggja leið sína að gosstöðvum í Geldingadal um páskana og njóta náttúrunnar eins og hún gerist best. Þetta sjónarspil, þessi kraftur, þetta er eitthvað sem flestir ættu að upplifa! En að upplifa og upplifa er ekki það sama. Hér ætlum við að stikla aðeins á því sem þarf að fylgja okkur, bæði fatnaði og útbúnaði til að ferðin verði sem eftirminnilegust.

Gangan að gosstöðvum er um 5 – 6km frá fyrstu stiku og tekur ca 1,5 klst hvora leið. Það má því gera ráð fyrir að minnsta kosti 10km löngum degi. En þetta er mælt frá fyrstu stiku, þangað þarf einnig að ganga, hvort sem er frá þar til gerðum bílastæðum eða öðrum stöðum lengra frá. Hafið þetta því í huga. Einnig veður og tilmæli frá Almannavörnum varðandi gasmengun á svæðinu.

Leiðin sjálf er grýtt á kafla og hæg yfirferðar, gengið er í gegnum hraun sem hefur orðið að göngustíg um þessar mundir. Góðir gönguskór með stuðningi upp að ökkla eru því nauðsynlegir til að veita löppunum okkar vörn frá oddhvassa hrauninu. Ekki gleyma sokkunum, verið í þægilegum göngusokkum til að minnka lýkur á blöðrum og hælsæri. Og svo er auðvitað vert að minnast á göngubrodda, en það er ennþá vetur hjá okkur og leiðin getur því verið hál.

Fatnaður ætti að vera lagskiptur, ull næst líkamanum (buxur og bolur), síðan göngubuxur og peysa eða jakki yfir að ofan og síðast en ekki síst, vind- og vatnsheld skel. Hún má vera í bakpokanum líka ef þannig viðrar en ekki klikka á henni. Þegar tekur að hvessa verðum við öll þakklát fyrir skelina. Svo er það auka úlpa, dúnn eða primaloft, fyrir stoppið sjálft auðvitað. Þegar við erum búin að ganga í okkur hita á leiðinni að gosinu þá viljum við halda honum sem lengst þegar á hólminn er komið, því er gott að vera með auka jakka með sér. Ullarpeysa dugar líka.

Vettlingar og húfa – skylda! Það sakar ekki að vera með góðar lúffur fyrir stoppið sjálft, meiri hiti þar á ferð.

Ekki gleyma síðan einhverskonar rötunarbúnaði, GPS tæki, áttavita eða korti. Hægt er að sækja leiðina í síma líka en þá ekki klikka á auka hleðslu fyrir hann þar sem kuldi og rafmagn fer sjaldnast vel saman. Einnig, þegar að gosi er komið og dýrðin blasir við manni, þá fer stór hluti af rafhlöðunni í að taka myndir hvort sem er.

Göngustafir hjálpa töluvert og ef þið eigið þannig til þá ekki geyma þá heima. Og auðvitað höfuðljós líka. Allt dótið okkar fer síðan í bakpoka, einhvern sem rúmar hlutina og er þægilegur á baki.

Að lokum, nesti og drykkir! Það allra heilagasta í okkar huga enda fátt verra en að vera mættur á svæðið og þurfa að drífa sig til baka vegna þess að maður er orðinn þyrstur eða svangur. Takið eitthvað heitt á brúsa, það er kósý stemmning í því. Og ekki gleyma ruslinu, það sem fer með okkur inn á svæðið kemur aftur heim líka.

Svo þarf eflaust ekki að minnast á það, en við gerum það nú samt, munið eftir spritti, andlitsgrímu og 2m reglunni. Höldum veirunni í skefjum og verum heima ef við finnum fyrir einhverjum einkennum.

Góða skemmtun!