Press "Enter" to skip to content

Skel…fyrir hendur?

Það er mígandi rigning og það bætir í vind. Við erum stödd upp á fjalli og ekki á því að láta smá bleytu stoppa okkar! Förum í bakpokann okkar og drögum fram skelina, jakkann og buxurnar og á núll einni erum við orðin tiltölulega vatnsheld og tilbúin í framhaldið. Hettan upp, bakpokinn á bakið og stafir í hendur…en hvað með þær…það stefnir allt í að vettlingarnir okkar blotna í gegn, puttarnir verða kaldi og það mun reynast ansi erfitt að grípa vel um stafina.

…og þá kemur viðfangsefnið okkar að góðum notum. Skel sérstaklega hugsuð yfir vettlinga!

Þessi fyrirferðalitli bjargvættur okkar getur skipt sköpum þegar veðrið er blautt og hvasst. Skelin virkar eins og hver önnur skel, við förum í lúffurnar yfir vettlingana okkar og höldum þannig puttum þurrum og hlýjum áfram, þrátt fyrir rigninguna. Efnið er sem fyrr vatnshelt og vindhelt og koma lúffurnar í mismunandi stærðum. Við mælum með því að máta yfir aðra vettlinga, eins og við myndum gera með skel jakka eða buxur.

Lúffurnar eru hugsaðar til að nota yfir annað þar sem þær sjálfar búa ekki til mikinn hita. Eins og með annan skelfatnað er mikilvægt að hugsa fyrirfram og fara í skelina áður en innra lagið undir blotnar mikið. Við myndum ekki standa lengi úti í rigningu í dúnjakka og leyfa honum að blotna án þess að henda yfir okkur vatnsheldum jakka er það nokkuð…? Það sama gildir með vettlinga og lúffur. Förum strax í skelina yfir þegar aðstæður krefjast þess.

Eins og fyrr segir koma þessar lúffur í mismunandi stærðum og því gott að máta til. Þær fást í flestum útivistarverslunum, t.d. í Ölpunum, eru þunnar og fyrirferðalitlar og ættu að vera með okkur í öllum komandi ferðum í vetur og vor.

Tjékkið á þessu!