Press "Enter" to skip to content

Haustútilegur – Búnaður (2. hluti)

Við höldum áfram þessari seríu okkar og ætlum að fjalla um búnaðinn í dag, hvað þarf ég til þess að skjótast í haustútilegu, hvað er nauðsynlegt og hvað er gott að hafa. Eins og með annað er ákveðinn búnaður nauðsynlegur en annar er “lúxus”, það er gott að hafa hann með en ekki nauðsynlegt. Best er að byrja á ákveðnum grunni og prófa sig síðan áfram. Hverju gleymdi maður sem verður tekið með næst, hvað væri gott að hafa þessa stundina og hvaða lúxus ætla ég að taka með næst til að gera upplifunina ennþá betri.

Við skulum skipta þessu upp í þrjá flokka, hvað þarf ég á göngu, á tjaldstað og um nóttina.


Á göngu þurfum við þennan hefbundna göngufatnað, innsta lag, miðlag og ysta lag. Innsta lag er ekki nauðsynlegt ef maður er heitur að eðlisfari og gott er að hafa í huga að þegar maður gengur hlýnar líkaminn hratt og það er ekki gott að koma mjög sveittur inn á tjaldstað. Sviti og kuldi fara ekki vel saman og maður kólnar hratt. Ekki gleyma svo húfu og vettlingum ef veðrið er af þeim toga.

Góður bakpoki er nauðsynlegur og þarf hann að geta rúmað allan þann útbúnað sem við ætlum okkur að bera. Mikilvægt er að raða rétt í hann svo við finnum sem minnst fyrir honum á bakinu. Göngustafi er svo gott að hafa til að dreifa álaginu sem við verðum fyrir með þungan á bakinu.

Að sjálfsögðu gerum við ráð fyrir þvi að allir séu búnir að skilja eftir einhverskonar ferðaplan hjá ábyrgðaraðila sínum og eru með kort og GPS tæki.

Eftir stutt…nú eða langt labb erum við komin á tjaldstað. Hvað tekur við hér?

Við drögum upp tjaldið okkar og veljum góðan stað fyrir það. Eins og nefnt var í fyrsta hluta er gott að velja sér stað við gott aðgengi að vatni, það auðveldar okkur lífið ansi mikið. En að tjaldinu, hvernig tjald? Þó svo að komið sé haust og farið að kólna í veðri notum við áfram sama tjaldið sem við notuðum í sumarferðunum okkar. Muniði, tjaldið er það sem mun halda okkur frá vindi og rigningu, en það er alltaf útbúnaðurinn okkar inn í því sem býr til hitann og heldur kulda frá. Göngutjaldið sem við notuðum í sumar er því gott til síns brúks, þau eru væntanlega létt og þægileg og við kunnum nú þegar að tjalda þeim. Engin vandamál þar. Það sem við þurfum að passa vel upp á, eins og áður, er að loftflæðið sé gott í tjaldinu og að það safni ekki raka inn í rýminu þar sem hann getur breyst í frost eða klaka þegar það fer að kólna og fellur á okkur þannig að hlutir verða rakir eða hreinlega blautir. Hér er því gott að fara yfir gluggana á ytra tjaldinu og passa að þeir séu opnir yfir nóttina, þegar við sofum og öndum vel frá okkur.

Tjaldið komið upp, næst blásum við dýnuna upp og setjum aðra einangrunardýnu undir. Já þið lásuð rétt, tvær dýnur. Þar sem kuldinn frá jörðinni leitar upp og gólfdúkurinn á tjaldinu okkar hefur enga einangrun þá þurfum við að verjast honum eftir bestu getu. Þegar kemur að vali á dýnum er talað um R-gildi í einangrun. Þetta er mælieining sem notuð er af öllum framleiðendum og því hægt að bera dýnur og einangrun þeirra saman eftir R-gildi. Þeim hærri tala, þeim meiri/betri einangrun. Til viðbótar við þetta er vert að nefna að R-gildin plúsast saman, þ.e.a.s. ef við erum með eina dýnu undir okkar sem er með R-gildi 2,4 og aðra sem er með R-gildi 5,5 þá er samtals einangrunargildið undir okkur R-7,9.

Fyrir kalda haustútilegu mælum við með dýnum eða blöndu af dýnum með ekki lægra R-gildi en 2 – 3,9. Þá er miðað við að lofthiti sé rétt fyrir ofan frostmark um nóttina og að jörðin sé ekki þakin snjó. Um leið og frostið fer að mæta þá mælum við með R-gildinu 4 – 5,4. Munið, ef notaðar eru tvær dýnur (eins og höfundurinn notar) þá leggur maður saman R-gildin og fær út samtöluna sem gildir.
En fyrir utan þetta tæknital, þá er bara meira kósý að hafa hlýrra undir sér heldur en ekki og því er dýna atriði sem ekki skal vanhugsa. Dýnan sem notuð er undir er einföld frauðdýna og pakkast hún vel saman, getur verið slétt eða riffluð fyrir ennþá meiri einangrun. Þær eru ódýrar og nánast ódrepanlegar.

Og þá að því næsta sem þarf að huga vel að…svefnpokinn! Búið að blása dýnuna upp og raða þeim inn í tjaldið. Maður er kominn í þurr ullarföt og tilbúinn til að skríða inn í svefnpokan. En hvernig poka? Svefnpokinn er jafn mikilvægur og dýnan hérna, hann þarf að vera góður og þola kuldan sem úti er. Stærðfræðin er einföld, ef pokinn er ekki góður eða of þunnur (sumarpoki) þá verður okkur kalt og nóttin erfið framundan. Kuldaþol poka er gefið upp í þremur tölum, þægindamörk, neðri mörk og þolmörk. Þær eru reiknaðar út skv. staðlaðri formúlu, þ.e.a.s. að einstaklingur liggur í ullarbol, buxum og sokkum inn í svefnpokanum og ofan á dýnu sem er með R-gildið 5,5. Með þessi skilyrði er fengin út kuldaþolstala hvers svefnpoka fyrir sig. Þar af leiðandi, ef við erum svefnpoka, með þægindamörkin í -5°C þá getur okkur samt orðið kalt ef við liggjum á slæmri (eða engri) einangrunardýnu og nakin inn í honum. Góð þumalputtaregla í þessum fræðum er sú að ef einstaklingur er heitfengur þá horfir hann á neðri mörkin en ef hann er kuldasækinn þá horfir hann á þægindarmörkin og velur poka út frá þeim.

Þegar kemur að kaupum á svefnpoka þá er gott að hugsa út í notagildi hans, kaupa poka sem mun nýtast manni við fleiri aðstæður en bara þessa einu útilegu sem framundan er. Skoða vel alla fítusa hans, er hann með góðri hettu, hvar eru rennilásarnir og hvernig renna þeir, er vasi fyrir kodda, er hann nógu léttur til að bera eða það þungur að það verður erfitt, er hann gerður úr gervi efnum eða dún, o.fl. o.fl. Góður poki sem vel er hugsað um mun endast okkur um ókominn tíma. Og konur…athugið! Það eru til sérstakir kvennapokar sem eru með auka fítusum sem nýtast konum betur og eru meira og betur einangraðir á mjöðmum og öxlum. Hafið það í huga við valið.

Ekki gleyma síðan koddanum, en hann er best að hafa uppblásinn. Fer lítið fyrir en þægindin eru svo sannarlega til staðar. Ekki drösslast með stóra koddan að heiman, þetta er útilega.

Þá erum við komin ofan í pokann okkar og tilbúin til svefns. Það er frábær nótt framundan! Til að við njótum hennar til fulls er gott að huga að góðum ullarfötum – vera með þurrt sett af buxum, bol og sokkum með sér. Einnig eru þunnir vettlingar, buff um hálsinn og húfa málið fyrir allra köldustu næturnar. Svo er gott að nota skelina sína og dúnjakkan til að breiða yfir svefnpokan til að fá enn meiri einangrun.

Hérna koma svo nokkur auka trikk sem gott er vita af:

  • Ef fötin okkar eru rök eftir daginn, t.d. ullin sem við löbbuðum í, er gott að setja þau í botninn á svefnpokanum fyrir nóttina, þannig þornar allt fyrir næsta dag
  • Þegar sofið er í kulda á maður það til að fela andlitið beint ofan í svefnpokan og anda að og frá sér í hann. Það er hins vegar ekki gott því þannig safnast saman raki inn í pokanum, hann verður rakur með tímanum og missir hitaeiginleika sína. Gott er því að sofa með lambúshettu á höfði, þannig fær maður skjól á höfuð, eyru og háls og andar eðlilega frá sér út úr pokanum. Einnig er gott að setja buff yfir nefið og munn ef manni er extra kalt.
  • Ef það er extra kalt úti er gott að gera léttar æfingar fyrir svefninn til þess að ná hita ofan í svefnpokanum sem fyrst. Léttar uppsetur eru frábærar…bara rólega…ekki svitna!
  • Að hita vatn og setja í vatnsbrúsann okkar, skrúfa VEL fyrir og skella í botninn á svefnpokanum fær mann til að gleyma frostinu úti eins og skot!
  • Ef lappirnar á manni eru í lengri kanntinum og rekast í enda tjaldsins á blautum degi er hætta á því að bleytan leiti inn í gegnum tjaldið. Þá er gott að setja skelina sína utan um neðsta partinn á svefnpokaum og þannig forða frá því að hann blotni í leiðinni.
  • Ljós ljós ljós….alltaf að vera með ljós sem hægt er að hengja upp í tjaldinu. Því að vera með höfuðljós á hausnum allt kvöld getur orðið þreytt.

Ok! Við erum þá búin að ganga og finna gott tjaldsvæði (1. hluti), tjalda og gera allt klárt (2. hluti), þá er bara eitt umfjöllunarefni eftir, hvað ætlum við að borða í kvöld- og morgunmat?! Ræðum það næst!