Press "Enter" to skip to content

Neyðarskýli

Þau eru lítil og létt, líta skríngilega út, eru vind- og vatnsheld…og þau bjarga mannslífum. Þetta eitt og sér ætti að selja manni þá hugmynd að hlaupa út í næstu útivistarverslun og kaupa eitt stykki neyðarskýli. Setja það síðan neðst í bakpokan og gleyma því. En skoðum þetta aðeins nánar.

Byrjum á byrjuninni.

Hvað eru neyðarskýli?
Neyðarskýli eru í grunnin mjög svipuð á milli framleiðanda og líta þau út eins og tjald sem maður setur utan um sig og annan, eða aðra, þar sem þau eru gerð fyrir tvo, fjóra, sex og jafnvel átta manns.
Hefbundnu tjaldi er tjaldað á jörðinni og skriðið svo inn. Neyðarskýli eru hins vegar klædd utan um einstaklinginn og strekt lokuð svo að neðan, soldið eins og að klæða sig í kartöflupoka sem loka þarf að neðan. Til að þau haldist á sínum stað eru síðan setur í þeim flestum sem maður sest á og þannig fjúka þau ekki í burtu. Skýlin eru með einhverskonar öndun, oftast litum “strompi”, sem tryggir gott flæði á súrefni inn í því og lágmarks rakamyndun. Svo koma sum þeirra með litlum gluggum sem hægt er að sjá út um. Skýlin eru í mjög skærum og áberandi lit og sjást því vel í fjarska, af landi og úr lofti. Skýlin eru gerð úr vatns- og vindheldum efnum eins og tjöld og halda því veðri vel frá þeim sem inni eru.

Fyrir hverja eru þau?
Einfalt, fyrir alla þá sem fara í lengri ferðir og sérstaklega þá fjarri mannabyggðum! Það breytir engu hvort ferðin sé gönguferð, skíðaferð eða vélsleðaferð, skýlið nýtist alltaf vel. Í gamla daga voru aðeins leiðsögumenn sem báru skýli og þekktu til þeirra en með breyttum tímum, auknum áhuga á útivist og betra aðgengi að búnaði er þetta eitthvað sem allir ættu að huga að sem fara í lengri ferðir.

Bara í neyð?
Svo sannarlega ekki! Þó svo þau heiti neyðarskýli þá er hægt að nota þau við aðrar aðstæður líka þar sem þetta eru í grunninn skýli. Algeng notkun þeirra er t.d. að bíða af sér vont veður þegar ekkert annað skjól er að fá. Þá klæðir maður skýlið yfir sig og útbúnaðinn sinn og hefur það huggulegt á meðan. Einnig er mjög vinsælt að taka matarstopp í þeim, til að fá smá “frið” frá veðrinu ef það er af þeim toga. Notkunin er því ýmisleg þó svo ekki um neyð sé að ræða. Eftir að maður hefur drukkið kaffið sitt og borðað flatbrauðið er það tekið saman, sett í litla geymslupokan sinn og aftur í bakpokan…neðst…þar sem það ætti að eiga heima í öllum lengri ferðum.

Hvar fást neyðarskýli?
Í öllum helstu útivistarverslunum s.s. GG Sport og Fjallakofanum.

Ekki klikka á þessu í vetur, þegar dagarnir fara að styttast og vetrarferðirnar fara að verða meira krefjandi ætti eitt stykki neyðarskýli að koma með okkur.