Press "Enter" to skip to content

Fjallgöngur og verkir í hnjám

Að verkja í hnén getur verið bagalegt ástand og fælir það marga frá því að stunda fjallgöngur, verkirnir sem maður á von á eru það miklir að betra er að sleppa því að fara út frekar en að láta sig hafa þá. En hvað er til ráða, eru til leiðir til að vinna bug á þeim?

Hjá sumum koma verkirnir og fara, hjá öðrum eru þeir krónískir og hjá enn öðrum koma þeir aðeins á leiðinni niður. Hver þekkir ekki að hafa hugsað “mér finnst eiginlega erfiðara að fara niður heldur en upp”?

En það eru til leiðir sem hjálpa, lítil trikk sem geta gert mikinn mun þegar á hólminn er komið og verkurinn farinn að banka upp á. Skoðum þetta betur.

  • Æfing – Já, æfing æfing æfing! Með æfingu hreyfum við liðina og vöðvana í kringum hnén til, þeir mýkjast upp og verða ekki eins stífir og viðkvæmir. Besta æfingin er auðvitað að ganga og muna svo að teygja eftir á. Hér er ekki átt við að ganga alltaf á fjöll eða í miklum erfiðum, heldur að ganga. Fara í stutta göngutúra um hverfið, nýta jafnslétta stíga til að mýkja sig upp og þá ósléttu til að styrkja sig. Þannig að þegar loks kemur að fjalli eða miklum bratta þá verður hreyfingin ekki óþekkjanleg fyrir hnén okkar.
  • Stafir – Göngustafir geta gert kraftaverk! Þegar við göngum með stafi og notum þá rétt (nánar um það hér) þá öðlumst við fjórhjóladrif. Allt í einu erum við farin að nota hendurnar við gönguna. Magnað! Rannsóknir hafa sýnt að með réttri notkun göngustafa getur maður tekið 30-40% þungans af hnjánum og fært þá yfir á efri part líkamans. Þetta er mjög mikið og sýnir sig best í löngum göngum með þunga poka á bakinu eða bröttum brekkum niður. Prófið þetta næst!
  • Zik Zak – “Við ætlum að zikk zakka hérna upp”, hver hefur ekki heyrt þetta áður. Þetta er göngutækni sem notuð er á leið upp og niður brattar brekkur. Maður gengur þá í Z, hækkar sig rólega til vinstri, færir svo þungan og heldur áfram að hækka sig rólega til hægri. Með þessu móti náum við að dreifa álaginu jafnt á liðina og finnum ekki eins mikið fyrir brekkunni þegar upp er komið. Hér er mikilvægt að gefa sér tíma, ekki spretta og fara fram úr sér, brekkan hefst alltaf á endanum.
  • Mýkt í hnjánum – Verkurinn kemur og fer og sumir fá hann aðeins á leiðinni niður brekkur. Þá er voða gott að ganga niður, áfram í zik zak, og vera mjúkur í hnjánum, læsa ekki löppunum beinum heldur að vera eins og gormur, mjúúúkur. Með þessu móti finnum við síður fyrir högginu sem skrokkurinn okkar verður fyrir þegar gengið er niður og þyngdaraflið virðist toga okkur fastar til sín. Við beygjum þá lappirnar örlítið til og göngum með mjúkar mjaðmir. Þetta getur reynst skrítið til að byrja með en þegar maður er kominn niður verkjalaus þá allt í einu fattast það hvað skrítið getur verið gott.

Hérna eru fjórar leiðir til að minnka verkina sem hugsanlega eru að hræða einhverja þarna úti. Prófið þetta og sjáið hvort göngutúrinn gangi (haha) ekki betur næst.