Press "Enter" to skip to content

Þegar tekur að hausta

Haustið er skollið á og veturinn nálgast óðfluga. Við finnum hvernig rökkrið færist yfir á kvöldin, hitatölurnar lækka og við veljum þykkari peysur á morgnanna. Á kvöldin kveikjum við á kertum og höfum það huggulegt upp í sófa undir teppi með te í bolla og netflix í sjónvarpinu.En áður en við leggjumst undir feld í sófanum ætlum við út í fjallgöng. Já aldeilis! Við leggjumst ekki í dvala þó veturinn nálgist hratt heldur höldum ótrauð áfram þar sem frá var horfið í sumar. Það eina sem breytist er búnaðurinn okkar. En það er einmitt það sem við ætlum að fara yfir í dag – eða stikla á stóru í dag.

Þegar kólnar í veðri breytist fataval okkar og búnaður fyrir fjallgöngur hvort sem fara á í styttri ferðir t.d. á fellin í kringum höfuðborgasvæðið eða í lengri ferðir á hærri fjöll. Í bakpokann bætast við hlutir eins og Esjubroddar, höfuðljós, húfa, vettlingar og þykkari peysa eða úlpa.

Við skulum byrja á fatnaði.

Þar sem við (sérstaklega sú sem skrifar þennan pistil) erum einlægir aðdáendur ullarinnar þá ætlum við að ræða hana hér. Ullarbolir og ullarbuxur. Ullarsokkar og ullarpeysur. Ullarvettlingar og ullarhúfur. Ullin hefur þann snilldarlega eiginlega að halda á okkur hita þó hún blotni, hún þornar einnig hratt og það er allt sem við þurfum. Eitthvað sem heldur á okkur hita þegar við setjumst niður á toppnum eftir að hafa svitnaði í brekkunum. Ullarfatnaður kemur einnig í mismunandi þykkt og því mjög hentugt að velja þykkari ullarboli eftir því sem kólnar í veðri. Það sama á við um göngusokkana – velja þykkari sokka þegar kólnar í veðri. Bæta jafnvel við ullarbuxum undir göngubuxurnar ef þess þarf.

Í bakpokann er nú einnig ráð að bæta við vettlingum, buffi eða trefli og húfu. Ef þið eruð lunkin við að prjóna eða þekkið til slíkra eru þæfðir ullarvettlingar himnasending fyrir kaldar hendur.

Ullarpeysa eða flíspeysa og vesti er samsetning sem er mikið notuð á haustin. Ekki alveg góðu hlýtt fyrir bara peysu en ekki alveg nógu kalt fyrir úlpu. Fullkomin blanda. Skeljakkinn yfir ef það fer að hvessa of mikið. Eða rigna. 

Í styttri og lengri ferðum er góð úlpa gulli betri til að skella yfir sig og halda hita á meðan nestið er borðað. Hvað úr hverju fær hún því að fljóta með í bakpokann.

Þá að búnaðinum.

Líkt og við þekkjum svo vel hér á Íslandi styttist dagurinn hratt um þessar mundir. Höfuðljósin ættu því fljótlega að fara í bakpokann ásamt auka batteríum. Það vill enginn verða ljóslaus í myrkri upp á Helgafelli. Trúið mér! Höfuðljósin koma í ýmsum gerðum og er ýmislegt sem hafa þarf í huga þegar fjárfest er í slíkum nauðsynja búnaði. Eins og hversu mikinn styrk (lumens) viljum við hafa. Reglan er – hærri tölu fylgir meira ljós. Í venjulegar fjallgöngur mælum við með 60-150L. Einnig þarf að skoða hvort ljósin þoli veður og vind, sérstaklega rigningu en mörg ódýrari ljós eru ekki vatnsheld. Þá er ýmist hægt að fá höfuðljós sem ganga fyrir AAA batteríum eða hleðslubatteríum.

Þegar fyrsta snjókornið fellur í fjöllin tökum við fram Esjubroddana og setjum þá í bakpokann. Þar eiga þeir að vera þar til næsta vor. Esjubroddar eru grófir broddar með beittum tönnum sem hjálpa okkur að ná betra gripi í brekkunum, verða öruggari í hálkunni og snjónum. Esjubroddar eru ætlaðir í ,,auðveldari” fjallgöngur en þegar talað er um slíkar er til dæmis átt við Esjuna upp að steini, Úlfarsfell og Helgafell og fleiri slík fjöll. Þegar haldið er á jökla eða á brattari fjöll eiga jöklabroddar að vera með í för. Esjubroddar fást í öllum útivistarverslunum og eru skyldueign fyrir alla þá sem hyggjast ganga á fellin og fjöllin í vetur.

Látum ekki haustveðrið stoppa okkur í að njóta útiverunnar. Klæðum okkur betur og bætum við þeim búnaði sem við þurftum í bakpokann. Verum áfram örugg með þau tæki sem við þurfum til rötunar því það verður vissulega erfiðara að rata í myrkri en í birtunni sem fylgir sumrinu.

Af stað nú þrömmum af stað inn í haustið..