Press "Enter" to skip to content

Kattartjarnaleið

Þriðja og síðasta A-til-B gangan sem við birtum í bili er Kattartjarnaleið, en áður höfum við fjallað um Leggjabrjót og Síldarmannagötur

Kattartjarnaleið er óhemju fjölbreytt og skemmtileg leið sem liggur milli Hveragerðis og Grafningsvegar við sunnanvert Þingvallavatn. Við kjósum að hefja leika í Hveragerði, þá klárast hækkunin okkar snemma og fyrsti partur leiðarinnar er stórbrotna hverasvæðið í Grænsdal – það er ekki amalegt að byrja þannig!

Við fylgjum skiltum sem leiða okkur á bílastæðið við upphaf gönguleiðarinnar í Reykjadal, inn af Hveragerði. Við göngum yfir brúna yfir Varmá og beygjum strax til hægri meðfram girðingu. Eftir smá spöl förum við yfir girðinguna á stiga og þá blasir fyrsti hluti gönguleiðarinnar inn Grænsdal við. Við höldum okkur vestan megin við Grændalsá á leiðinni inn dalinn. 

Innan skamms förum við að sjá merki mikils jarðhita; litadýrð, gufustróka og bullandi hveri. Á stórum köflum er enginn sýnilegur slóði svo mikilvægt er að gæta að skrefunum og fara ekki nærri hitasvæðunum. Vegna slóðaskorts getur leiðin inn dalinn virst ögn villugjörn. Gott er að hafa með sér GPS-tæki með ferli af leiðinni (eða kort). Sé slíkt ekki til staðar þarf aðeins að fylgja Grændalsánni vel inn dalinn og taka svo vinstri beygju upp vel gróna brekku í greinilegt skarð milli stærstu fjallanna vestan megin. Úr skarðinu er tilvalið að taka nestisstopp og njóta útsýnisins yfir heita lækinn í Reykjadal fyrir neðan. 

Í skarðinu dettum við einnig niður á stikur svo rötun hér eftir er auðveld. Við höldum áfram eftir rauðum stikum þar til við komum að vegvísi sem bendir okkur eftir þægilegu sléttlendi í átt að Kattartjörnum. Héðan eltum við bláar stikur það sem eftir er ferðar. 

Eftir að hafa gengið framhjá Álftatjörn komum við að Kattartjörn efri undir Kyllisfelli. Tjörnin sést ekki frá stikaða slóðanum okkar og því þarf smá útúrdúr upp á augljósa hóla hægra megin slóðans til að sjá yfir hana. Hólarnir eru jafnframt hæstu punktar leiðarinnar. Frá þeim stað sjáum við einnig Kattartjörn neðri, en leið okkar liggur ekki jafn nærri henni nema við kjósum að lengja daginn okkar aðeins. 

Séð að Kattartjörn neðri frá hól við þá efri.

Frá hólunum við Kattartjörn efri höldum við niður til norðurs þar til við finnum stikurnar okkar aftur. Við fylgjum þeim spölkorn en þá tekur við einn stórbrotnasti hluti leiðarinnar – Tindgil (einnig nefnt Tindagil) undir Hrómundartindi. Gilið er á köflum gróft og þröngt en þar er aldrei brattlendi eða klöngur sem vert er að nefna. Lækur rennur úr Kattartjörn efri og niður eftir gilinu en hann er mis vatnsmikill eftir árstíma og aðstæðum, stundum getur þurft að rölta í læknum nokkur skref en þó ættu fætur ekki að þurfa að blotna. Í gilinu eru meiriháttar hraunmyndanir sem vert er að gefa sér tíma til að njóta.

Við upphaf Tindgils fyrir neðan Kattartjarnir.
Inni í Tindgili – glittir í slóðann fyrir miðri mynd.

Þegar gilinu sleppir komum við niður á flatir handan Hrómundartinds. Stikurnar leiða okkur þar að stiga yfir girðingu, en frá henni er hægt að stytta leiðina ögn með því að taka stefnuna til hægri (norðurs) og að uppþornuðum árfarvegi sem kemur úr Tindgili. Sá farvegur mætir Ölfusvatnsá ögn neðar, en henni ætlum við að fylgja niður að Grafningsvegi. 

Ölfusvatnsárgljúfur.

Við höldum okkur austan við ána og fylgjum bláu stikunum meðfram hinu glæsilega Ölfusvatnsárgljúfri sem býður upp á þónokkur myndatækifæri meðan við þræðum auðveldan slóðann. Þegar við nálgumst sumarhúsabyggðina neðst í dalnum þurfum við að vaða Ölfusvatnsána. Hún er nokkuð breið og getur vel náð upp í miðja ökkla svo gott er að hafa vaðskó meðferðis. 

Vaðið yfir Ölfusvatnsá – hressandi fyrir þreytta fætur!

Frá vaðstaðnum er örstutt eftir niður á veg svo við fylgjum stikunum áfram gegnum kjarr og eftir vel sýnilegum stíg þar til við komum að Grafningsvegi rétt þar sem Ölfusvatnsá rennur undir hann. 

Við höfum nú lokið um 16km göngu með u.þ.b. 500 metra heildarhækkun. Algengt er að gangan taki milli 5-6 klukkustundir – allt eftir því hversu lengi göngufólk staldrar við alla þá stórbrotnu staði sem verða á vegi þess.