Press "Enter" to skip to content

Útivist og húðumhirða

Stærsta líffæri líkamans er húðin og það reynir mikið á húð þeirra sem stunda mikla útivist. Húðin gegnir ýmsum hlutverkum þar á meðal að verja okkur frá umhverfinu, mengun og sólargeislum. Einnig geymir húðin í sér vatn, fitu og D-vítamín.
Þeir sem eru duglegir að stunda útivist afhjúpa húð sína fyrir veðrun, þurrki, sólargeislum, skít/drullu/ryki og oft svita. Því gefur að skilja að huga verður vel að húðinni svo hún geti haldið áfram að sinna hlutverki sínu sem best. 

Gott er að koma sér upp rútínu og ferlið þarf ekki að vera flókið. Í raun mætti segja að því einfaldari sem rútínan er því betra. Við stingum upp á að hafa þessi þrjú skref í huga: 

Sólarvörn

Áður en farið er út ætti maður alltaf að setja á sig sólarvörn, allan ársins hring. UV geislar sólarinnar smjúga í gegnum skýin og geta valdið skaða á skýjuðum degi jafnt sem sólríkum. Sólarvörn hjálpar til við að verja okkur gegn bruna, hrukkum, ójöfnum húðlit og húð krabbameini.
Geislar sólar eru tvenns konar, UVB geislar og UVA geislar. UVB geislarnir valda sólbruna og spila stærsta þáttinn í myndun húð krabbameins. UVA geislarnir eiga einnig hlut í myndun krabbameins en hins vegar eru það þeir sem smjúga sér dýpra inn í húðina og valda ótímabærri öldrun húðarinnar.
Þess vegna er mikilvægt er að finna sér góða sólarvörn sem verndar bæði gegn UVA og UVB geislum og mælum við með að leita sér að vörn með merkingunni “broad spectrum”.

Við mælum með SPF 30 til SPF 50. Og ekki gleyma vörunum, hægt er að fá varasalva með SPF vörn. Einnig þarf að muna að bera reglulega á sig yfir daginn, það er ekki nóg að bera bara á sig áður en haldið er af stað. 

Hér má sjá sólarvörn SPF 50 með merkinguna Broad Spectrum

Húðin hreinsuð

Eftir útiveru er gott að venja sig á að hreinsa húðina. Þetta þarf alls ekki að vera flókið, bara renna blautum þvottapoka yfir andlitið og hreinsa mesta skítinn/drulluna/rykið og svitann af. Eða bara að taka eina góða skvettu á andlitið og þurrka af með handklæði. 

Á ferðinni eða í lengri göngum er gott að vera með blautklúta fyrir andlitið og hreinsa það með þeim. Flestir klútar í dag eru með Aloe Vera olíum og næra þeir húðina á sama tíma og þeir hreinsa hana.

Raki

Eftir útiveru getur húðin orðið þurr og þreytt hvort sem það er eftir langan dag í sólinni eða kaldan og þurran dag á fjöllum. Eins og við vitum er mikilvægt að drekka vel við líkamlega áreynslu og er það ekki síður mikilvægt fyrir húðina svo hún geti viðhaldið hlutverki sínu. Eftir að inn er komið getur því verið gott að næra húðina og löðra góðu rakakremi á andlitið og á þá staði sem hafa verið berskjaldaðir. 

Purity Herbs selur t.d. krem sérstaklega tileinkað þeim sem stunda mikla útivist. En í raun dugar hvaða rakakrem sem er svo lengi sem það hentar þér og þinni húð.

Eins og kom fram í byrjun þarf rútínan ekki að vera flókin, gott er að miða við að hafa þetta svo auðvelt að það tekur því ekki að sleppa þessu.  Einnig skal það haft í huga að allir eru með mismunandi húð svo maður gæti þurft að prófa sig áfram með hvaða vörur henta.

Af stað nú…hugsum um húðina!