Aðsend grein
Ég er 42 ára gömul kona sem hefur gaman af útivist og byrjaði aftur að ganga á hóla eftir góða pásu. Það hefur margt breyst frá því ég gekk síðast, meðal annars búnaðurinn sem kona þarf að hafa! Ekki það samt, mér finnst mjög gaman að kaupa nýja hluti tengda áhugamálum, golfkylfur, reiðhnakka og margt annað. En aldrei hefði mér dottið í hug að bakpoki skipti svona miklu máli, þ.e.a.s. að hann sé gerður fyrir mig.
Mig vantaði góðan poka og um jólin fékk ég þennan fína, bláa poka sem hentaði vel, eða leit vel. Get ekki sagt að hann hafði hentað vel því eftir fyrstu göngurnar fóru vandamálin að koma upp. Mér fannst hann alltaf skrítinn, ólarnar stuttar og náðu ekki nægilegt vel. Ég fór í verslun og fékk auka bönd sem voru strekkt á pokan og gerði það hann mun betri. En þó ekki eins og mig langaði. Það voru alltaf einhver óþægindi við hann þegar þyngdin var komin ofan í.
Þetta endaði bara á einn hátt, nýr poki skal það vera og nú verður farið og skoðað vel. Í verslun einni fékk ég frábæra þjónustu, en það sem stóð upp úr var vitneskjan um að til eru sérstakir kvennapokar, bakpokar gerðir fyrir konur. Þeir nuddast ekki á röngum stöðum og eru mun þægilegri að minu mati. Þarna hitti ég bakpokan á höfuðið, þetta litla og annars ómerkilega atriði skipti miklu máli, mjög miklu meira að segja!
Í dag er pokinn minn vínrauður, þægilegur á alla kannta, með nóg af vösum og böndum sem ég er loks farin að skilja betur. En það mikilvægasta var að þessi poki er gerður fyrir mig, fyrir konu sem hefur mjaðmir og brjóst! Og nú er líka mun auðveldara að bera það sem taka skal, löngu ferðirnar eru engin fyrirstaða! Stelpur, skoðið bakpokana ykkar betur!