Press "Enter" to skip to content

Bakpoki fyrir Hnúkinn?

Þessi spurning kemur oft upp, “hversu stóran bakpoka þarf ég fyrir Hvannadalshnúk?” Skoðum þetta!

Þegar farið er á Hnúkinn fylgir manni töluverður búnaður eins og jöklabroddar, ísexi, belti, auka fatnaður og svo auðvitað gott nesti og nóg af drykkjum. Þetta hljómar allt svo mikið er það ekki? Og það fyrsta sem manni dettur í hug er risa stór bakpoki, bak beygt niður og maður lítur út eins og Sjerpi á leiðinni upp brekkurnar.

En það þarf ekki að vera þannig!

Fyrir stuttu var hér fjallað um hinn fullkomna dagpoka og hvað gott er að hafa í huga við val á einum þannig. Færslan er hérna og við hvetjum alla til að lesa hana. Fullkominn dagpoki hentar nefnilega vel fyrir Hnúkinn og ef hitt er á þann rétta verður ferðin lítið sem ekkert mál.

Það þarf að hafa í huga stærð pokans, að hann sé auðvitað ekki of lítill og rúmi vel það sem manni fylgir upp fjöllin. En að sama skapi má hann ekki vera of stór því þá fer hann að vega meira og við fáum þá löngun til að pakka meira í hann. Ég meina, það er ennþá pláss hérna, er ekki bara best að fylla það með auka jakka…og nesti…og fleiri batteríum?!

Pössum að pokinn hafi góðan stuðning við mjaðmir því þar verður 80% þungans á göngunni, stórir púðar eru frábærir og flestir þeirra eru með litlum hólfum á til að geyma hluti sem þarf að komast í á ferðinni án fyrirhafnar. Pössum líka bakið, að skoða ekki of litla bakpoka né of stóra. Of lítið eða of stórt bak þýðir að hann mun liggja ekki rétt á okkur, við finnum meira fyrir honum þegar líður á daginn og með tímanum fara verkirnir að banka upp á.

Að lokum, ef eitthvað óöryggi er til staðar þá mælum við með því að taka saman hlutina sem við höfum í hyggju að bera og fara með þá í næstu verslun, fá að raða í bakpoka og máta til. Það er besta leiðin og tryggir ákveðið öryggi við okkur. Einnig, nýtum okkur þjónustuna í verslunum og spyrjum starfsfólkið sem lifir í þessum bakpokaheimi dagsdaglega og veit oftar en ekki allt um þá.

Gangi ykkur vel!