Press "Enter" to skip to content

Akrafjall – Hringleið (643m)

Akrafjall þekkja allir, við á höfuðborgarsvæðinu höfum eflaust flest margsinnis virt það fyrir okkur á góðviðrisdögum. Því miður hafa færri gert öfugt og virt höfuðborgarsvæðið fyrir sér frá fjallinu. Okkur langar því að benda ykkur á fína leið til að kynnast fjallinu í heild sinni á einum, góðum degi. 

Akrafjall hefur marga hóla og hæðir en tveir tindar eru þekktastir, Háihnúkur (555m) sunnanmegin og Geirmundartindur (643m) norðanmegin. Leiðin okkar byrjar á bílastæði við vatnsból Akraness, best er að aka Akrafjallsveg (nr. 51) í áttina frá bænum þar til komið er að skilti er við afleggjarann sem bendir á fjallið.

Frá bílastæðinu er hægt að halda sem leið liggur upp á Háanúk eða Geirmundartind. Við stefnum á Háahnúk og höldum okkur því hægra megin. Við röltum áleiðis upp veginn frá bílastæðinu, göngum yfir ána og meðfram girðingu sem afmarkar vatnsverndarsvæðið. Þegar þangað er komið sést greinilegur slóði upp í hlíðina sem við fylgjum. 

Slóðinn upp fyrsta partinn.

Leiðin á Háahnúk skiptist gróflega í þrennt; fyrst klárum við klettabröltið neðst (áhugaverð þversögn) og komumst upp að fyrstu vörðu. Því næst höldum við eftir fjallinu og fram á brún, þá fyrst fáum við útsýni yfir hluta Esjunnar og höfuðborgarsvæðið í suður. Brúninni fylgjum við svo upp á topp. 

Verðlaunaútsýni uppi á Háahnúk.

Eftir að komið er upp á Háahnúk liggur leið okkar meðfram fjallinu í austur. Til að ná sem flestum “toppum” í safnið er fínt að stefna rakleiðis á næstu bungu sem kallast Jókubunga. 

Frá Jókubungu er í raun hægt að velja hvort fólk vill skera hringinn til að taka stystu leið sem landið býður upp á yfir á hinn hluta fjallsins eða fara lengri leiðina og safna fleiri “toppum”. Við veljum að sjálfsögðu þá leið og höldum áfram sem leið liggur að næstu girnilegu bungu.

Leiðin á fjallinu er ekki sérstaklega merkt þó sumsstaðar séu sjáanlegir slóðar. Göngufólk getur því rölt um eftir eigin höfði með viðkomu á bungum eða brúnum eftir því sem hugurinn girnist og tími leyfir. 

Austast á fjallinu er svo greinilegur viðsnúningspunktur, bunga með tveimur vörðum í u.þ.b. 570 metra hæð. Við getum auðvitað ekki sleppt því að klukka báðar vörðurnar þó lítið mál væri að stytta hringinn með því skera vestan við þær. 

Önnur varðan á viðsnúningspunktinum. Háihnúkur til vinstri og Geirmundartindur til hægri.

Frá viðsnúningsvörðunum höldum við uppteknum hætti og göngum einfaldlega á brattann sem nú snýr að okkur úr vestri. Sjá má móta fyrir slóða ofarlega í honum sem gott er að miða á. Þaðan er svo gott að stefna stystu leið út á brún, því við viljum að sjálfsögðu búa til sem stærstan hring!

Brúnin norðan megin, Geirmundartindur blasir við.

Þegar á brúnina norðan megin er komið er lítið mál að fylgja henni sem leið liggur að Geirmundartindi. Slóðinn verður greinilegri eftir því sem nær dregur tindinum. Frá honum er frábært útsýni og vel þess virði að taka gott nestisstopp og fagna því að vera aftur komin í alfaraleið á fjallinu. 

Leiðin niður frá Geirmundartindi er á köflum örlítið klöngur en ekkert sem ætti að trufla göngufólk. Gott er að hafa í huga að næst tindinum liggur stígurinn nokkuð nálægt brúninni svo sumir gætu fengið létt kitl í magann! Niðurleiðin getur einnig verið ögn villugjörn þar sem slóðinn er ekki greinilegur allsstaðar sökum stórgrýtis. Það kemur þó ekki að sök þar sem auðvelt er að fara niðurfyrir slóðann á þeim köflum án afleiðinga. 

Niðurleiðin frá Geirmundartindi.

Við endum svo á brún fyrir ofan vatnsbólið og höldum þaðan greinilega leið aftur í bílinn.

Við mælum eindregið með að sem flestir hendi sér í skóna einn góðan veðurdag í sumar og drífi sig af stað til að kynnast Akrafjalli!

Akrafjall hringleið:
Mesta hæð : 643m
Lengd : 15,5km
Heildarhækkun: 1.166m
Tími: 6,5klst.

HÉR má nálgast GPS-feril af leiðinni. 

GPS-ferill.