Press "Enter" to skip to content

Búrfell á Þingvöllum (783m)

Ætli Búrfell sé ekki eitt af algengustu heitum á Íslandi, þau eru það mörg að nauðsynlegt er að nefna í hvaða landshluta maður er að fara þegar talað er um fjallið. Að þessu sinni ætlum við á Þingvelli!

Verkefnið í fjarska

Þegar ekið er á Þingvelli stendur Búrfellið á vinstri hönd og berst við Botnssúlurnar um athygli. En þó fjallið sé um 300m lægra þá er það alls ekki síðra og býður upp á skemmtilegan dag með miklu útsýni þegar á toppinn er komið.

Leiðin

En fyrst pökkum við í bakpokan og hefjum gönguna við bæinn Brúsastaði. Best er að ganga að grindverki bæjarins og fylgja því svo til vinstri, þannig göngum við fyrir utan bæjarmörkin og fylgjum kindaslóða upp. Hinn kosturinn við þetta er sá að þá gengur maður fyrir utan Öxará og þarf því ekki að krossa yfir hana. Gengið er meðfram ánni, með hana á hægri hönd og Selfjall á vinstri. Stefnan tekin beint upp á fjallið, einfalt og þægilegt.

Botnssúlurnar að birtast
Selfjall

Áður en uppgangan á fjallið sjálft hefst er komið að Búrfellsgili og hér þarf að vaða ánna til að komast yfir. Stundum kemst maður upp með það að stikla yfir á steinum en oftar en ekki þarf bara að láta sig hafa það. Hún er sem betur fer ekki breið né djúp og því er þetta bara frískandi.

Búrfellsgil

Þegar yfir bakkan er komið er stefnan tekin upp öxlina á fjallinu, beint upp, skref fyrir skref og þá hefst þetta.

Á leiðinni upp birtist Þingvallavatn við manni og útsýnið magnast með hverju skrefi. Nesjavellir, Botnssúlur o.fl. Muna bara að stoppa reglulega og líta aftur fyrir sig.

Þingvallavatn að birtast

Þegar komið er upp á brún birtist varðan við manni og toppi því náð. Útsýnið er til allra átta, yfir Hvalfjörðin og nærsveitir. Á góðum degi sér maður yfir Faxaflóan, Snæfellsnes og Eyjafjallajökul í fjarska. Botnssúlurnar standa svo fyrir sínu og freista!

Botnssúlur
Útsýnið af toppnum

Þetta er skemmtileg ganga sem verðlaunar mann með miklu útsýni á fallegum degi. Hún hentar öllum þeim sem treysta sér í lengri dag og góðar brekkur. Leiðin er ekki snúin og því fær flestum. Eins og oft áður mælum við með því að kynna sér hana vel og vera með staðsetningarbúnað með sér.

Búrfell á Þingvöllum
Hæð : 783m
Lengd : 13km
Hækkun : 670m