Press "Enter" to skip to content

Hvalfell (852m)

Í Hvalfirði er að finna mikið magn af fallegum tindum og höfum við áður fjallað um nokkra þeirra. Að þessu sinni ætlum við að heimsækja þann sem kenndur er við fjörðinn sjálfan, Hvalfellið góða.

Þó það gnæfir 852m metra yfir sjávarmáli þá er fjallið skilgreint sem fell vegna flats topps sem það hefur. Toppurinn leynir á sér og gangan eftir honum er töluverð. En það er seinni tíma vandamál, fyrst þurfum við að komast upp hlíðarnar!

Stígurinn að Glymsgili

Gangan hefst á bílastæðinu við fossinn Glym og í raun og veru deilir Hvalfell gönguleiðinni með Glym fyrsta spölinn. Við göngum eftir góðum og stikuðum slóða, í gegnum hellinn og yfir ánna. Ef drumburinn er á henni er þetta lítið mál, annars þarf að vaða hana og við mælum þá með vaðskóm og litlu handklæði. Að sumri til er drumburinn þarna, settur niður í kringum maí og tekinn aftur í lok ágúst.

Gengið yfir ánna

Eftir að við komum yfir ánna er genginn sami slóði og upp að Glym, meðfram Glymsgili og því með fallegt útsýni alla leið upp á hæsta útsýnispall. Leiðin upp tekur oft dágóðan tíma vegna margra myndastoppa, það er bara ekki hægt að ganga þarna upp án þess að mynda fossinn einu sinni…eða tvisvar.

Glymsgil

Eftir síðasta útsýnisstoppið skilja leiðirnar í sundur og við höldum upp brekkurnar á hægri hönd. Á þessum tíma fer maður að sjá fyrst almennilega í fjallið sjálft og öxlina sem við ætlum að ganga upp. Úr fjarska lítur brekkan út fyrir að vera brött og ansi löng…sem hún er…en eitt skref í einu og áður en maður veit er hún hálfnuð…og svo búin!

Botnssúlur í fjarska
Upp öxlina – Hvalfjörður í baksýn

Þegar komið er upp á brún er útsýnið yfir Hvalfjörðinn ansi magnað! Horft er út fjörðinn, yfir í Síldarmannagötur, á Botnssúlurnar og hluta af Leggjabrjót og alla leið yfir á Akrafjall. Þetta svíkur engan. En þetta er ekki toppurinn og við höldum áfram, yfir sléttuna sem var nefnd hér á undan. Hér er aftur gengið eftir slóða sem er sjáanlegur á sumrin, en að vetri til þarf GPS til að rata betur.

Flatur toppur Hvalfells

Í fjarska sést í vörðuna og toppinn sjálfan. Og þegar þangað er komið verður útsýnið ennþá betra. Yfir Botnssúlurnar, Kaldadal og loks fer að glitta í Langjökul og Eiríksjökul á góðum degi.

Útsýnið af toppi Hvalfells

Hvalfell er frábært fjall og eitt af þeim sem vert er að heimsækja á hverju sumri. Gangan er krefjandi en ef farið er hægt yfir er hún fær öllum þeim sem treysta sér í langan dag.

Hvalfell
Hæð : 856m
Lengd : 10km
Hækkun : 850m

…af stað nú, heimsækið þetta fell í sumar!