Press "Enter" to skip to content

Grunnatriði GPS: Fyrri hluti – Val á tæki

Eins og við höfum áður nefnt teljum við GPS tæki ómissandi á fjöllum. Sama hversu gott veðrið er og hversu vel maður telur sig þekkja leiðina sem framundan er, þá getur ýmislegt komið upp á sem breytir aðstæðum. Í neyðartilvikum getur auk þess sparast dýrmætur tími ef hægt er að deila hnitum með viðbragðsaðilum án tafar. Í okkar huga er gott GPS tæki einfaldlega öryggisnet sem við teljum að enginn ætti að vera án.

Við ætlum því að eyða nokkrum orðum í helstu atriðin til að hafa í huga þegar tæki er valið. Flest tæki sem eru hönnuð til útivistar haka í svipuð box, en af öllum upplýsingunum sem við fáum þegar við skoðum tæki er hentugt að hafa að minnsta kosti eftirfarandi á bak við eyrað: 


STAÐSETNINGARKERFI: Þegar tæki er valið sjáum við alltaf hvaða staðsetningarkerfum það getur unnið með. Helstu kerfin sem eru til staðar eru GPS, GLONASS, Galileo og BeiDou-kefin. Þessi kerfi byggja öll á mismunandi gervihnattanetum og eru því óháð hvert öðru. Stærsti munurinn er einfaldlega eignarhaldið; GPS-kerfið er í eigu Bandaríkjanna, GLONASS í eigu Rússlands, Galileo í eigu Evrópusambandsins og BeiDou í eigu Kína. Það eina sem við þurfum að vita er að því fleiri staðsetningarkerfi sem tækið okkar getur lesið, þeim mun meiri möguleika hefur það á að sýna okkur nákvæma staðsetningu við erfiðar aðstæður þar sem samband við gervihnetti getur verið takmarkað. 


RAFHLÖÐUR: Uppgefinn líftími rafhlaða er mjög mismunandi eftir tækjum. Gott er að hafa hann í huga en flest göngutæki eru með hámarksendingartíma í kringum 16-25 klukkustundir sem er feikinóg fyrir alla almenna notkun. Mjög einfalt er að nota tækin dögum saman með því að taka nokkrar auka rafhlöður með í för og skipta eftir þörfum. Við mælum ekki með því að treysta á endurhlaðanlegar rafhlöður þar sem þær eru bæði dýrari og gera okkur háð því að komast í hleðslu ef við erum á löngum ferðum (og enn síður að treysta á tæki sem eru eingöngu með innbyggðum rafhlöðum). Betra er að taka nóg af góðum einnota rafhlöðum.


SNERTISKJÁR / TAKKABORÐ: Mörg tæki nú til dags hafa sagt skilið við gamla, góða takkaborðið og bjóða í staðinn aðeins upp á snertiskjá með 1-2 tökkum eða jafnvel stýripinna. Slík tæki hafa sannarlega kosti, þau eru almennt léttari og hægt er að vafra hraðar um valmöguleikana. Þó þau séu að sjálfsögðu vatnsvarin samkvæmt sama staðli og tæki með takkaborði, mætti færa rök fyrir að líta á þau sem nokkurs konar “góðviðristæki”. Helsta ástæðan er einfaldlega sú að við eigum erfitt með að nota snertiskjái í þykkum vettlingum eða lúffum. Sé ætlunin að nota tækið okkar í fjalllendi að vetri, í köldum vindi eða jafnvel snjóbyl, er dýrmætt að geta reglulega kippt því úr vasanum, athugað ferilinn okkar, merkt staðarpunkta og kannað rafhlöðuendingu án þess að þurfa að standa í brasi við að fara úr og í hanska með tilheyrandi kulda og tímatapi. Við viljum ekki að okkur finnist vesen að kíkja á tækið okkar!


ÁTTAVITI: Langflest dýrari tæki eru með innbyggðan þriggja ása rafeindaáttavita sem er leiðréttur fyrir halla tækis og gefur því réttar upplýsingar í kyrrstöðu og þó tækinu sé ekki haldið lárétt. Tæki sem EKKI innihalda rafeindaáttavita nota samblöndu af GPS og hreyfingu til að sýna stefnu og gera notandanum kleift að ganga eftir staðarpunktum. Mikilvægt er að átta sig á muninum á þessu þar sem áttaviti í slíku tæki gefur ekki réttar upplýsingar í kyrrstöðu. 


HÆÐARMÆLIR: Líkt og með áttavitann eru flest dýrari tæki útbúin loftþrýstingshæðarmæli sem skráir hæðarbreytingar á ferðum okkar út frá loftþrýstingi. Tæki sem EKKI innihalda loftþrýstingshæðarmæli treysta á hæðarupplýsingar úr korti, annað hvort korti tækisins eða gagnagrunni sem ferlinum er varpað á síðar, til að sýna hæðarbreytingar.


Þegar tækið hefur verið valið er um að gera að koma sér sem fyrst út til að prófa! Það er sérstaklega gaman að fikta í nýjum græjum en stóra málið snýst þó um mikilvægi þess að læra vel á búnaðinn sinn. Það á jafnt við um tæki, fatnað, tjöld og annað sem við tökum með okkur í útivistina. 

Í seinni hluta munum við fara yfir hugtök og nokkra praktíska hluti varðandi notkun á tækjum, fylgist með!

Við mælum sérstaklega með Garmin GPSMAP 64SX frá Garmin-búðinni.