Press "Enter" to skip to content

Vatnshlíðarhorn í Krýsuvík (385m)

Ást okkar á Krýsuvík leynir sér ekki, þetta svæði hefur gjörsamlega allt! Hvort sem maður er að leita að stuttri og skemmtilegri göngu, lengri og aflíðandi eða krefjandi klifri, það finnst allt hérna í bakgarðinum!

Að þessu sinni ætlum við kynnast Vatnshlíðarhorni, þeim tindi sem blasir við manni þegar komið er inn á svæðið frá Hafnarfirði.

Vatnshlíðarhorn

Fjallið er ein brött brekka, það er ekki flóknara en það. Úr fjarska, af “bílastæðinu” (við mælum með því að leggja vel út í kannti svo maður trufli ekki aðra umferð) lítur fjallið ekki út fyrir að vera mikið. En síðan, þegar gangan er hafin breytist álitið hratt.

Gengið er eftir greinilegum stíg, beint upp öxlina sem liggur frá veginum. Stígurinn sést vel að sumri til en gæti verið meira krefjandi að vetri þar sem snjósöfnun er mikil á svæðinu. Um miðbik leiðar gengur maður fram á leifar af gömlum vegvísi sem vísaði áður á fjallið.

Við höldum áfram upp og nú fer útsýni að verða meira og meira og fallegra í hverju skrefi. Horft er yfir Kleifarvatn, Sveifluháls og meira að segja Keilir fer að sýna sig í fjarska.

Kleifarvatn séð úr fjarska

Eftir stutta göngu, eða um 45 mín, er komið á toppinn og maður minn, hann klikkar ekki á fallegum degi! Höfuðborgin fer að láta sjá sig og meira að segja Snæfellsnesið með jökulinn í fararbroddi.

Helgafellið í fjarska af toppnum

Vatnshlíðarhorn er ekki erfitt viðureignar og hentar öllum þeim sem treysta sér í góða brekku. Vegalengdin er ekki löng þó hækkunin sé alveg til staðar. Verðlaunin af toppnum eru þó þess virði. Við mælum með kaffi á brúsa og að njóta um stund.

Horft yfir Sveifluháls

Vatnshlíðarhorn
Hæð : 385m
Lengd : 2,5km
Hækkun : 300m

…af stað nú, kynnið ykkur Krýsuvíkuralpana!