Press "Enter" to skip to content

Hvernig göngustafi á ég að fá mér?

Við ræddum eitt sinn hvernig á að nota göngustafi en er ekki betra að byrja á byrjuninni og velja þá einu réttu?

…ef þeir eru til!

Markaðurinn fyrir göngustafi er álíka stór og fjölbreyttur og fyrir fatnað og skó, hann er STÓR og úr mörgu að velja. Hægt er að fá góða stafi fyrir 5-10 þús en einnig er hægt að sleppa sér alveg og fara vel yfir þær tölur. Mesta úrvalið er hægt að finna í Fjallakofanum og GG Sport um þessar mundir.

Munurinn liggur oftast í þyngd og stillingum á þeim. Ódýrari stafir eru oftast læstir með snúningi, þ.e.s.a. maður snýr stafnum inn í sjálfan sig og læsir honum þannig. Þessir stafir eru oft aðeins þyngri en hér munar grömmum og því hægt að vega og meta muninn.

Dýrari stafir eru vandaðri og með smellum fyrir læsingar. Þær koma sér vel t.d. í miklu frosti þar sem líkurnar eru minni á að þær festist í stað. Einnig er auðveldara að losa og festa stafina í hönskum eða lúffum. Oft hafa þeir líka frauð handföng í staðinn fyrir plast og passa því betur í lófa og renna ekki til vegna bleytu eða svita.

Báðar tegundirnar koma síðan oftast með snjóstoppara, hrings sem festur er neðst á stafinn svo hann sökkvi ekki í snjó þegar stungið er niður. Ef þessi litla græja fylgir ekki með þá mælum við sérstaklega með því að kaupa eina slíka með, er nauðsynleg í djúpum snjó.

Snjóstoppari

Eins og með margt annað eru dýrari stafir að öllu jöfnu vandaðri. En hér er þó gott að spyrja sjálfan sig hvort maður þurfi á þeim að halda eða hvort betra sé að verja mismuninum í eitthvað annað, nýtt sokkapar eða vettlinga. Dýrt er gott…en þarf ég á því að halda?

…af stað nú, kynnum okkur göngustafi!