Press "Enter" to skip to content

Húsfell í Hafnarfirði (288m)

Við hliðina á Helgafelli í Hafnarfirði, fjalli allra fjalla, stendur minni hóll sem færri fara en gefur þó ekkert eftir. Húsfell er 288m hátt og gangan að því er töluvert lengri en að Helgafelli þó fjöllin deila leið að hluta.

Gengið er að Kaldá og farið þar til vinstri í stað hægri að Helgafelli. Leiðin er stikuð og nokkuð vel sjáanleg að öllu jöfnu. Best er að ganga meðfram girðingunni sem aðskilur vatnsbólið frá og þannig er auðvelt að rata. Eftir að komið er framhjá stórri vörðu við enda grindverks, Helgadals, er stefnan tekin á Valaból og það haft á hægri hönd.

Þegar komið er að Húsfellsgjá er greinilegur vegur sem liggur alla leið að fjallinu sjálfu og best að fylgja. Gaman er að ganga á hæðinni til að fá fallegt útsýni á leið sinni.

Uppgangan á Húsfelli er brött og snörp með fallegu útsýni til allra átta. Gengin er hægri öxl, upp fjallið eftir göngustig sem liggur alla leið á topp. Gaman er að stoppa á leiðinni, rétt undir toppnum og skoða bergið sem mótast hefur þarna á svæðinu…jafnvel að telja andlitin sem margir hverjir sjá…

Toppurinn er glæsilegur og eins og fyrr segir með miklu útsýni, alla leið frá Esjunni og Hellisheiði, til Bláfjalla og Krýsuvíkur. Jú og að sjálfsögðu, yfir Helgafellið góða.

Leiðin niður er sú sama og upp og alla leið til baka. Þeir allra hörðustu eru hvattir til að heimsækja Helgafellið í sömu ferð…það er nú þarna rétt hjá!

Húsfell
Hæð : 288mm
Lengd : 10 km
Hækkun : 210m

…af stað nú, allir að tjékka við Húsfell!