Inn í Hvalfirði má finna nokkrar perlur sem fjallgöngufólk má ekki láta fram hjá sér fara. Þyrill (393m) er eitt þeirra fjalla, auðvelt yfirferðar og verðlaunar mann með stórkostlegu útsýni. Kíkjum aðeins betur á það.
Gangan hefst á sama bílastæði og gangan yfir Síldarmannagötur, við stóru vörðuna í botni Hvalfjarðar. Þar er hægt að leggja bílum þar sem við munum ganga sömu leið til baka.
Fyrst um sinn er gengin sami stígur og um Síldarmannagötur, í gegnum birkið, upp klettana og yfir litla mýri. Meðfram fossum og lækjum og því nóg að sjá. Leiðin hækkar hratt og eftir stutta göngu fær maður glæsilegt útsýni yfir Hvalfjörðinn, út fjörðinn sjálfan í aðra áttina og inn í Botnsdal og upp í fjöllin í hina.
Þegar komið er upp í klettana höldum við til vinstri og förum út af sjálfum Síldarmannagötum. Leiðin okkar er sjáanleg, liggur um hlíðar klettanna og veitir því áfram gott útsýni. Landslagið er auðvelt yfirferðar og er hér gengið á steinum, grasivöxnum hlíðum og kindagötum. Þar sem við göngum nálægt brún á klettunum er mikilvægt að fara varlega og stíga þétt í lappirnar. Útsýnið fylgir okkur alla leið út á Þyril sjálfan, kletta sem glæfa yfir Hvalfjörðinn.
Þegar komið er út á Þyril blasir öll dýrðin við manni. Á góðum degi sést alla leið út á fjörðinn, Akrafjallið, Snæfellsnesið o.fl.
Í hina áttina sér maður svo Hvalfellið, Botnsúlurnar og botn Hvalfjarðar. En svo er mikilvægt að líta líka niður, á Þyrilsnesið sjálft sem rennur út í Hvalfjörð. Stórkostlegt útsýni sem gerir þessa göngu algjörlega þess virði.
Gangan er um 8km löng með um 350m heildar hækkun. Hún tekur um 2 klst með góðum myndastoppum…sem eru nauðsynleg!
Af stað nú…allir að kíkja á Þyril!